Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi

Sólveig Erla, Ísabella Líf og Sóley Sif. Mynd: Hofdaskoli.is
Sólveig Erla, Ísabella Líf og Sóley Sif. Mynd: Hofdaskoli.is

Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi var haldin fimmtudaginn 4. apríl. Húnavallaskóli sá um lokahátíðina að þessu sinni.

Þrír keppendur komu frá hverjum skóla, þ.e. Blönduskóla, Húnavallskóla, Höfðaskóla og Grunnskóla Húnaþings vestra. Forkeppni er haldin í hverjum skóla fyrir sig og mæta því þrír bestu úr hverjum skóla í lokakeppnina. Óhætt er að segja að allir keppendur hafi staðið sig vel og settu dómnefndina í talsverðan vanda því erfitt var að velja úr.

Dómarar voru að þessu sinni Guðjón Ólafson, Gísli Jóhannes Grímsson og Þórður Helgason (fulltrúi Radda).

Að þessu sinni voru allir verðlaunahafar úr Höfðaskóla, glæsilegur árangur hjá þeim.

Úrslit urðu þessi:

  1. Sóley Sif Jónsdóttir, Höfðaskóla
  2. Sólveig Erla Baldvinsdóttir, Höfðaskóla
  3. Ísabella Líf Tryggvadóttir, Höfðaskóla

Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn veittu peningaverðlaun fyrir fyrstu 3 sætin.

Allir keppendurnir fengu síðan tvenn bókaverðlaun.

Að lokum var farandskjöldur afhentur en skjöldurinn var gefinn af sjóði sem stofnaður var til heiðurs Grími Gíslasyni. Sá skóli sem hlýtur 1. sætið varðveitir skjöldinn fram að næstu keppni og kom það í hlut Höfðaskóla að þessu sinni.