Annáll ársins 2011

Annáll Húnavallaskóla árið 2011

Vetur og vor 2011

Skólastarf hófst á Húnavöllum Þriðjudaginn 4. janúar að loknu jólafríi.  Kennarar mættu þá til starfa en kennsla hófst þann 5. janúar. Í Húnavallaskóla er fjölbreytt og líflegt skólastarf og er það sem hér fer á eftir aðeins brot af því mikla starfi sem fer þar fram ár hvert.

Í janúar fengum við skemmtilega heimsókn. Það voru þeir Aðalsteinn Ásberg ljóðskáld og Svavar Knútur söngvaskáld. Heimsókn þeirra var á vegum bókmenntaverkefnisins Skáld í skólum. Þeir kynntu fyrir nemendum byltingarskáldið Stein Steinarr, fluttu brot úr verkum hans og sögðu frá lífi skáldsins sem varð með tíð og tíma þjóðareign. 

Öskudagurinn var haldinn hátíðlegur í Húnavallaskóla samkvæmt venju.  Kennarar og nemendur leik- og grunnskólans voru í hinum ýmsu búningum og var greinilegt að margir höfðu lagt mikla vinnu í búningagerð.  Kötturinn var síðan sleginn úr tunnunni og varð Magnús Örn Valsson í 10. bekk tunnukóngur eftir að hafa slegið köttin úr með þungu höggi í lok þriðju umferðar tunnubarsmíða..  Eftir þá athöfn var marserað og eftir smá miðdagshressingu var dansað meira. 

Hið árlega “Stórbingó Húnavallaskóla” var haldið föstudaginn 4. mars og var hátíðin afar vel heppnuð og fjölsótt. Mikið fjölmenni var og flest allir stólar skólans nýttir fyrir gesti. Vinningar voru veglegir að vanda og stórglæsilegt kaffihlaðborð á eftir sem foreldrar 9. bekkinga sáu um. Undirbúningur bingósins var í höndum 9. bekkinga og hefur staðið meira og minna frá því í byrjun janúar. Krakkarnir eru duglegir að safna vinningum og mætta velvilja hjá þeim fyrirtækjum og stofnunum sem þau hafa leitað til. Allur ágóði af skemmtuninni rennur í ferðasjóð nemenda 9. bekkjar.

 

Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi var haldin í Félagsheimilinu á Blönduósi fimmtudaginn 24. mars. Fulltrúar Húnavallaskóla í keppninni voru þau Gísli Geir Gíslason, Mosfelli Matthildur Amalía Marvinsdóttir, Haukagili  og Natan Geir Guðmundsson, Finnstungu.  Öll stóðu þau sig mjög vel en fremstur á meðal jafningja var Natan Geir og náði hann þeim góða árangri að hafna í þriðja sæti keppninnar. 

 

Miðvikudaginn 16. mars, öttu nemendur 9. og 10. bekkjar kappi í þeim greinum sem keppt er í á Skólahreystimótunum. Strákarnir gerðu upphífingar og dýfur en stelpurnar héngu og  gerðu armbeygjur. Allir máttu svo reyna sig við hraðabrautina. Það voru Auðunn Þór Húnfjörð, Jenný Rut  Valsdóttir, Kristján Ingi Björnsson og Hanna Ægisdóttir sem  sem stóðu sig best, kepptu svo fyrir hönd skólans á Akureyri þann 25. mars. Keppendur og stuðningslið stóðu sig vel og endaði lið Húnavallaskóla í 6. sæti í sínum riðli með 32,5 stig.

Þann 1. apríl fóru 8. bekkingar í heimsókn í Sölufélag A-Hún. til að skoða starfsemina þar. Vel var tekið á móti þeim og fengu þau leiðsögn um húsið. Stórgripaslátrun var í gangi og þeir sem vildu sjá hvernig hún færi fram fylgdust með henni. Síðan var gengið um húsið og kjötvinnslan skoðuð ásamt færibandinu og salnum þar sem sauðfjárslátrunin fer fram. Einnig fóru allir á stóru vigtina og kíkt var í frystinn en þaðan komu allir rjóðir í kinnum. Endað var á kaffistofunni þar sem Árný Þóra Árnadóttir fræddi þau um bakteríur og fleira, á meðan að krakkarnir fengu eitthvað í svanginn. Að því loknu héldu krakkarnir heim mun fróðari um starfsemi SAH.

Um 25% nemenda Húnavallaskóla tóku þátt í Grunnskólamótaröð hestamannafélaganna á Norðurlandi vestra og stóðu þeir sig með stakri prýði og bættu margir árangur sinn og söfnuðu í sinn reynslubrunn. Um leið og þessi mót eru keppni milli einstaklinga er þetta einnig keppni milli skóla þar sem nemendur safna stigum fyrir sinn skóla og endaði Húnavallaskóli í öðru sæti með 89 stig einungis 5 stigum frá fyrsta sætinu. Í mótaröðinni eru 3 mót, haldin á Sauðárkróki, Blönduósi og Hvammstanga. Á hverju móti er ein aðalgrein hestaíþrótta: Smali og þrautabraut fyrir þau yngstu, 4-gangur, 3-gangur, 2-gangur og fegurðarreið fyrir þau yngstu og tölt og fegurðarreið.

Alls tóku 16 nemendur þátt í einu eða fleiri mótum og voru það frá 1. bekkingum og upp í 10. bekkinga. Mikil samstaða og stemmning varð meðal krakkanna að standa sig vel og ná í stig í stigakeppni skólanna.

Skólarnir í Húnavatnssýslum héldu sitt árlega íþróttamót fyrir nemendur í 7.-10. bekk.  Mótið var haldið á Skagaströnd að þessu sinni og var hið glæsilegasta. Allir stóðu sig með prýði og skemmtu sér vel. Mótið hófst klukkan 14:00 og því lauk með diskóteki sem stóð fram eftir kvöldi.

Hinrik Norðfjörð Valsson, danskennari kom í sína árlegu heimsókn að Húnavöllum. Í eina viku stunduðu nemendur dansnám af kappi.  Að venju lauk þessari dansviku með sýningu fyrir foreldra og ættingja og að henni lokinni hófst svo páskafríið.

Vorverkefni 5.-9. bekkjar þetta vorið bar yfirskriftina  „Hestar og hestamennska“.

Allir nemendur skólans lögðu land undir fót á loka dögum skólans.

Nemendur í 1.-4. bekk skoðuðu sig um á Skagaströnd ,5.-6. og 7. bekkur fór að Hólum í Hjaltadal og síðan í flúðasiglingu í Blöndu og enduðu ferðina í nýju sundlauginni a Blönduósi. 

Nemendur 8. og 9. bekkjar heimsóttu Skagafjörðinn skoðuðu Víðimýrarkirkju fóru í river-rafting, klettasig og að lokum í sund í Varmahlíð.

10. bekkur fór að venju til Kaupmannahafnar og skoðaði sig um þar.

Lokadagur Húnavallaskóla á þessu skólaári var þriðudaginn 24. maí. Dagurinn var á léttum nótum með leikjum og glensi.   Skólanum var síðan slitið við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 26. maí.

Skólastarf haust 2011

Sigríður Bjarney Aadnegard nýr skólastjóri sameinaðra skólastofnanna sveitarfélagsins tók til starfa í júlí en Þorkell Ingimarsson lét af störfum í sumar. Kennarar mættu til starfa fimmtudaginn 18. ágúst að loknu sumarleyfi.

Starfið hófst með sameiginlegu námskeiði allra grunnskólanna í sýslunum. Námskeiðið var haldið á Blönuósi að þessu sinni og bar yfirskriftin „Heilsueflandi skóli / sjálfbær menntun“. Skólasetning fór fram fimmtudaginn 25. ágúst og voru 60 nemendur skráðir í skólann þetta haust. Námshópar eru fjórir 1.- 4. bekk er kennt saman, 5. og 6. bekk, 7. og 8. bekk og 9. og 10. bekk. Skólaárinu er skipt í þrjár annir haustönn, vetrarönn og vorönn. Á Vallarbóli vor 11 nemendur skráðir á haustönn.

Stærðfræðidagurinn var haldinn fimmtudaginn 15. september en þá er  hefðbundið skólastarf brotið upp og allt nám tileinkað stærðfræðinni. Mynstur var þema dagsins í ár og voru verkefnin fjölbreytt og skemmtileg. Nemendur unnu í hópum eftir aldri. Eftir hádegi var svo Norræna skólahlaupið en hefð er fyrir því að allir nemendur og kennarar taka þátt. Nemendur geta valið um að fara 2,5 km., 5 eða 10 km. og þess má geta að fjórir nemendur fóru 10 km. Alls tóku 54 nemendur þátt í hlaupinu og fóru þeir samtals 210 km. Dagurinn var hin ánægjulegasti og allir skemmtu sér vel.

Samræmd könnunarpróf voru lögð fyrir nemendur í 4.,7. og 10.  bekk og fóru þau fram dagana 19. - 23. september.  Prófað var í stærðfræði og íslensku auk ensku í 10. bekk.  Árangur nemenda var með ágætum.

Í tilefni af Degi íslenskrar tungu Þann 16. nóvember hittust nemendur leik- og grunnskólans og áttu saman góða stund  þar sem þau sungu og lásu ljóð íslenskra skálda.

Þennan dag hófst formlega Stóra-upplestrarkeppnin sem í Húnavatnssýslum er tileinkuð Grími Gíslasyni heitnum og nefnist Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi. Það eru nemendur í 7. bekk sem taka þátt í keppninni sem haldin verður hér í Húnavallskóla þann 15. mars 2012.

Foreldrafélagið stóð fyrir leikhúsferð á Sauðárkrók fyrir nemendur leik- og grunnskólans þann 4. nóvember. Farið var að sjá leiksýninguna “Allt í plati” eftir Þröst Guðbjartsson. Í leikritinu galdraði Lína Langsokkur til sín persónur úr þekktum barnaleikritum, m.a. Mikka ref, Lilla klifurmús, Karíus og Baktus, Kasper, Jesper og Jónatan og Soffíu frænku. Áður en sýningin hófst var farið á Ólafshús í flatbökuveislu. Voru allir ánægðir með ferðina, bæði börn og fullorðnir.

Félagar frá Gideonfélaginu komu í sína árlegu heimsókn og færðu nemendum 5. bekkjar Nýja testamentið og Davíðssálma að gjöf.

Sláturgerðardagurinn var 13. október en þá hjálpast allir nemendur grunnskólans að við sláturgerð, Oddný og Nanna sáu skipulagninguna og að finna verkefni fyrir hvern og einn. Nemendur voru mjög áhugasamir og duglegir. Sláturdagurinn er skemmtileg hefð og góð viðbót við þau verkefni sem skólinn býður upp á.

Miðvikudaginn 9. nóvember heimsóttu fulltrúar frá Rauða krossinum nemendur í 7. og 8. bekk.  Það voru þau Einar Óli Fossdal og Anna Kristín Davíðsdóttir sem kynntu starfsemi Rauða krossins og einnig fengu nemendur að skoða sjúkrabíl. Gestirnir voru sérstaklega ánægðir með hvað nemendur voru áhugasamir og fróðleiksfúsir um starfsemina.

Hilmar Frímannsson slökkviliðsstjóri heimsótti nemendur 3. og 4. bekkjar og fræddi um eldvarnir. Nemendur 3. bekkar fengu bók um systkinin Loga og Glóð og vasaljós að gjöf. Allir nemendur í 3. og 4. bekk fengu svo handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimila með sér heim. Hilmar heimsóttir einnig nemendur leikskólans í haust og fræddi þau um eldvarnir.

Piparkökudagurinn var haldinn hátíðlegur miðvikudaginn 8. desember. Nemendur á miðstigi og unglingastigi settu saman piparkökuhús og skreyttu. Börnin á yngsta stigi skreyttu fígúrur af ýmsu tagi. Afraksturinn til mikillar prýði í skólanum á aðventunni. Nemendur á Vallabóli skreyttu líka piparkökur og buðu síðan foreldrum og aðstandendurm í piparkökukaffi i byrjun desember.

Lambastaðanemendur fóru í hinn árlega jólatrésleiðangur inn í Vatnsdal.  Vinunum á leikskólanum,  Vallabóli var boðið með í ferðina.  Jón og Eline á Hofi tóku á móti hópnum og hjálpuðu við að finna fallegt tré sem setti svip sinn á skólalóðina. 

Árshátíð Húnavallaskóla var haldin föstudaginn 26. nóvember.  Eins og svo ævinlega var skemmtunin metnaðarfull og fjölsótt.  Hátíðin hófst með því að nemendur á unglingastigi fluttu tónlistaratriði og síðan fluttu nemendur í 7.,8. og 9. bekk leikritið Kardemommubæinn undir styrkur stjórn Jóhönnu Stellu Jóhannsdóttur, Magdalenu M. Einarsdóttur og Sonju Suska. Guðjón Þorsteinn Pálmarsson, leikari dvaldi hjá okkur í hálfan mánuð fyrir árshátíðina og aðstoðaði 10. bekkinga við að semja og setja upp leikverkið „Húnabakan“.  Skemmtunin var vel heppnuð og stóðu allir nemendur sig vel í sínum hlutverkum.   Að loknum skemmtiatriðum var að venju boðið upp á glæsilegar kaffiveitingar. Svo var dansað til klukkan 01:00.   Allur ágóði af skemmtuninni rann í ferðasjóð tíundu bekkinga.

Föstudaginn 19. desember voru litlu-jólin og að þeirri hátíð lokinni hófst jólafríið. Litlu jólin eru mikil hátíð hér í Húnavallaskóla. Fyrir hádegi eru stofujól en þá eiga nemendur stund með sínum umsjónarkennar og námshóp þar sem skipst er á jólagjöfum og jólakortum. Hefðbundið jólamatur er í hádeginu og eftir hádegið syngja og leika nemendur leikskólans og nemendur 1.- 6. bekkjar eftir það er dansað í kringum jólatréð og jólasveinar koma í heimsókn. Að lokum er svo diskó

Eins og áður er getið er hér aðeins minnst á hluta af því starfi sem fram fer í leik- og grunnskólanum. Á heimasíðum Húnavallaskóla  og Vallabóls  er hægt að afla sér frekari upplýsinga um skólastarfið þar er einnig að finna myndir af skólastarfinu og viðburðum í skólanum.

Sigríður Bjarney Aadnegard, skólastjóri