Annáll ársins 2010

Annáll Húnavallaskóla árið 2010

 

Skólabyrjun 2010

Skólastarf hófst á Húnavöllum mánudaginn 4. janúar að loknu jólafríi.  Kennarar mættu þá til starfa en kennsla hófst þann 5. janúar.

 

Sjálfsmat í grunnskólum

Menntamálaráðuneytið ákvað að fram færu úttektir á sjálfsmatsaðferðum í 29 grunnskólum víðsvegar um landið á haustmisseri árið 2009. Ráðuneytið fól Háskólanum á Akureyri framkvæmd verksins og sáu þeir Guðmundur Engilbertsson, sérfræðingur á skólaþróunarsviði og Trausti Þorsteinsson, forstöðumaður skólaþróunarsviðs um úttektina í Húnavallaskóla.  Í janúar 2010 bárust skólanum niðurstöður úr úttektinni og kom þá í ljós að Húnavallaskóli var í hópi 5 skóla af þessum 29 þar sem bæði viðmið ráðuneytisins um sjálfsmatsaðferðir og um framkvæmd sjálfsmats eru uppfyllt að öllu leyti.  Í bréfi sem er dagsett 22. janúar 2010  fagnar mennta- og menningarmálaráðuneytið góðum árangri og vel unnum störfum við sjálfsmat í skólanum og væntir þess að skólinn vinni áfram af sama metnaði við sjálfsmat.  Í gegnum árin hefur mikil vinna verið lögð í innra mat við Húnavallaskóla og þessar niðurstöður eru því mjög ánægjuleg viðurkenning á því starfi.

  

Öskudagurinn

Að venju var öskudagurinn haldinn hátíðlegur hjá Húnvellingum.  Nemendur mættu grímuklæddir í skólann um hádegi.  Eftir að hafa sýnt sig og séð aðra var kötturinn sleginn úr tunnunni.  Annað árið í röð eignaðist skólinn tunnudrottningu og var það Sandra Ósk Valdemarsdóttir í 7. bekk sem hlaut þann heiður.  Eftir mikinn glaum og gleði fóru yngri nemendur heim klukkan fjögur en þeir eldri voru áfram á diskóteki til klukkan 22:00.

 

Skíðaferð

9. bekkingar fóru í  skíðaferð til Akureyrar. Þar dvöldu þeir í tvo daga við skíðaiðkun í Hlíðarfjalli auk þess sem farið var á veitinga- og í kvikmyndahús.  Ferðin var vel heppnuð og skemmtileg.

 

Myndlistardagar

Dagarnir 22. febrúar til 5. mars voru myndlistardagar í Húnavallaskóla.  Þessa daga var Sigurdís Harpa Arnarsdóttir, myndlistarmaður  hjá okkur í skólanum.  Þetta er í þriðja skiptið sem hún kemur til okkar og miðlar af þekkingu sinni.  Allir tóku virkan þátt í verkefninu og mikil ánægja hefur verið  með þetta framtak skólans.  Stundaskráin hefur verið brotin upp og nemendur hafa farið daglega í myndlistartíma og einnig hafa kennarar notið leiðsagnar Sigurdísar.  Þessir dagar heppnuðust mjög vel og munu listaverkin sem sköpuð voru prýða veggi skólans að minnsta kosti næstu tvö árin en þá standa vonir til að hægt verði að halda svipaða daga aftur. 

 

Bingó

Föstudaginn 5. mars var árlegt stórbingó 9. bekkinga haldið í Húnavallaskóla. Að venju fóru nemendur í söfnunarferðir fyrir bingóið, meðal annars til Reykjavíkur og Akureyrar.  Einnig lögðu ýmis fyrirtæki í heimahéraði þeim lið.  Fjölmargir glæsilegir vinningar voru í boði.  Að loknu bingóinu voru svo myndarlegar kaffiveitingar sem foreldrar 9. bekkinga sáu um.  Skemmtuninni lauk með diskóteki klukkan 00:30. 

 

Framsagnarkeppnin

Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi var haldin við hátíðlega athöfn í Fellsborg á Skagaströnd. Í forkeppninni í Húnavallaskóla voru Ágústa Rós Ingibjörnsdóttir, Guðmar Magni Óskarsson og Helga Haraldsdóttir valin til þátttöku í aðalkeppninni.  Allt unga fólkið stóð sig vel en fremst meðal jafningja varð Lilja Karen Kjartansdóttir úr Grunnskóla Húnaþings vestra. 

 

Skólahreysti

Undankeppni fyrir skólahreysti fór fram á Húnavöllum í febrúarmánuði.  Aðalkeppnin var haldin á Akureyri.  Tveir drengir og tvær stúlkur kepptu fyrir hönd Húnavallaskóla.  Þetta voru þau Brynjar Geir Ægisson, Hjörtur Þór Magnússon, Rakel Ýr Jakobsdóttir og Sandra Haraldsdóttir.  Aðrir unglingar skólans skipuðu öflugt klapplið og hvöttu félaga sína til dáða. Að þessu sinni voru það Dalvíkingar sem fóru með sigur af hólmi. 

 

Tónlist fyrir alla

Björn Thoroddsen, gítarleikari og Gunnar Hrafnsson, kontrabassaleikari komu í heimsókn til okkar á vegum verkefnisins „Tónlist fyrir alla – Skólatónleikar á Íslandi“.  Í dagskrá sinni fóru þeir um víðan völl í tónlistinni, allt frá flugi „Óðu býflugunnar“ til Michael Jackson.  þetta var sannkölluð tónlistarveisla með gleðina í fyrirrúmi.  Á tónleikunum voru allir virkjaðir til þátttöku með söng, klappi og hreyfingum.  Nemendur og starfsfólk skólans höfðu hina mestu skemmtun af heimsókn þessara snjöllu tónlistarmanna.

 

Skákmót

Kjördæmismót í skólaskák fyrir Norðurland vestra var haldið í Grunnskólanum á Blönduósi þann 1. maí.  Aðeins keppendur frá tveimur skólum mættu til leiks. Frá Húnavallaskóla sem sendi keppendur bæði í yngri og eldri flokk og frá Grunnskólanum á Blönduósi sem sendi keppendur í yngri flokk. Sigurvegari í eldri flokki var Stefán Logi Grímsson, 10. bekk í Húnavallaskóla en í yngri flokki sigraði Hilmar Logi Óskarsson, 5. bekk í Húnavallaskóla.  með sigrinum áunnu drengirnir sér rétt til þátttöku á landsmóti í Skólaskák sem haldið var í Reykjavík dagana 6.-9. maí.   

 

Íþróttamót

Skólarnir í Húnavatnssýslum héldu sitt árlega íþróttamót fyrir nemendur í 7.-10. bekk.  Mótið var haldið í Grunnskóla Húnaþings vestra að Laugarbakka í Miðfirði. Heimamenn fóru með sigur af hólmi með 33,5 stig og Húnvellingar hrepptu annað sætið með 29 stig.  Mótið hófst klukkan 14:00 og því lauk með diskóteki sem stóð fram eftir kvöldi.

 

Danskennsla

Hinrik Norðfjörð Valsson, danskennari kom í sína árlegu heimsókn að Húnavöllum. Í eina viku stunduðu nemendur dansnám af kappi.  Að venju lauk þessari dansviku með sýningu fyrir foreldra og ættingja og að henni lokinni hófst svo páskafríið.

     

Vorverkefni 

Vorverkefni 5.-9. bekkjar hófst 12. maí. Þema verkefnisins er „Umhverfið“  Nemendur fengu verkefnið afhent og síðan var farið í vettvangsferð. Farið var í Gunnfríðarstaðaskóg þar sem Páll Ingþór Kristinsson, formaður Skógræktarfélags Austur-Húnavatnssýslu tók á móti okkur og sagði okkur sögu svæðisins og svaraði mörgum spurningum.  Vorverkefni 1.-4. bekkjar er tileinkað Íslandi með áherslu á nærumhverfið.

 

Vorferðalög 

Nemendur í 1.-4. bekk tóku stefnuna á Hvammstanga þar sem S elasetrið var skoðað.  Að því loknu var haldið í Flóðvang þar sem hádegisverður var snæddur og farið í ýmsa leiki og leið tíminn fljótt í blíðskaparveðri.  5.-6. og 7. bekkur fór til Akureyrar. Þar voru Flugsafnið, Nonnahús og Minjasafnið heimsótt. Síðan var ekið til Dalvíkur og Byggðasafnið skoðað, farið í sund og að lokum var snædd pitsa á veitingastaðnum Pitsa Veró.  Nemendur 8. og 9. bekkjar heimsóttu Snæfellsnesið.  Farið var meðal annars í svokallaða Suðureyjaferð, sund í Stykkishólmi og gönguferð frá Arnarstapa að Hellnum.  Suðureyjaferðin er skemmtisigling um suðureyjar Breiðafjarðar sem tekur um 2 klukkustundir og fimmtán mínútur.  Í ferðinni býðst nemendum meðal annars að skoða fjölskrúðugt fuglalíf Breiðafjarðar, sérkennilegar bergmyndanir, siglt er inn í sjávarfallastrauma og ýmis sérkenni eyjanna skoðuð. Nemendur gistu í Lýsuhólsskóla. 10. bekkur hélt í hina hefðbundnu útskriftarferð til Kaupmannahafnar að kvöldi 13. maí.  Brottförin tafðist þó um rúman sólarhring vegna áhrifa eldgossins í Eyjafjallajökli.  En þegar upp var staðið þá heppnaðist ferðin vel og áttu nemendur og fararstjórar ánægjulega dvöl í Kaupmannahöfn.       

 

Lokadagur og skólaslit

Lokadagur Húnavallaskóla á þessu skólaári varmiðvikudaginn 26. maí. Dagurinn var á léttum nótum með leikjum og glensi.   Skólanum var síðan slitið við hátíðlega athöfn föstudaginn 28. maí klukkan 14:00.

 

Upphaf skóla haustið 2010

Kennarar við Húnavallaskóla mættu til vinnu að loknu sumarleyfi miðvikudaginn, 18. ágúst. Þann dag var námskeið undir leiðsögn Eddu Björgvinsdóttur haldið á Húnavöllum. Formlegt skólastarf  hófst með skólasetningu fimmtudaginn 26. ágúst.  63 nemendur hófu nám í skólanum haustið 2010. Í vetur er kennt í fjórum námshópum. Yngsta stigið eða 1.-4. bekkur myndar einn hóp, miðstigið eða 5.-7. bekkur einn, 8. og 9. bekkur einn og 10. bekkur einn.  Fyrstu námsönninni lauk föstudaginn 5. nóvember og ný önn hófst með foreldraviðtölum og einkunnaafhendingu þriðjudaginn 9. nóvember.  

 

Ýmislegt frá haustönn 2010

Stærðfræðidagurinn var haldinn fimmtudaginn 16. september.  Þennan dag var hefðbundið skólastarf brotið upp og allt nám tileinkað stærðfræðinni. Að þessu sinni var þema dagsins flatar- og rúmfræði.  Nemendur unnu mismunandi stigskipt verkefni.  Eftir hádegi var svo Norræna skólahlaupið þreytt. 

                               Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur að venju. Nemendur lásu sögur og ljóð og sungu við undirleik Þórunnar Ragnarsdóttur. Þennan dag hófst formlega Stóra-upplestrarkeppnin sem í Húnavatnssýslum er tileinkuð Grími Gíslasyni heitnum og nefnist Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi. Það eru nemendur í 7. bekk sem taka þátt í keppninni sem haldin verður í Blönduskóla á Blönduósi þann 24. mars n.k. 

                               Samræmd könnunarpróf voru lögð fyrir nemendur í 4.,7. og 10.  bekk voru haldin dagana 20. - 24. september.  Prófað var í stærðfræði og íslensku auk ensku í 10. bekk.  Niðurstöður liggja fyrir og var árangur nemenda í Húnavallaskóla góður.

           Á vegum foreldrafélagsins var farið á Sauðárkrók og horft á leikritið Jón Odd og Jón Bjarna sem samið er upp úr samnefndri bók eftir Guðrúnu Helgadóttur. Þátttaka var afar góð og voru allir glaðir og ánægðir þegar upp var staðið.

Félagar frá Gideonfélaginu komu í sína árlegu heimsókn og færðu nemendum 5. bekkjar Nýja testamentið og Davíðssálma að gjöf.

Í upphafiskólaársins voru keyptar tvær nýjar saumavélar sem notaðar eru við hannyrðakennslu. Vélarnar hafa slegið rækilega í gegn og nýtast vel við kennsluna.  Stefnt er að því að fjölga saumavélunum eftir áramótin og efla með því þá verklegu kennslu sem boðið er upp á í skólanum

Sláturgerðardagur var haldinn í Húnavallaskóla miðvikudaginn 13. október.  Dagurinn hafði verið fastsettur á skóladagatali fimmtudaginn 14. október en vegna ófyrirséðra atvika varð að flýta honum um einn dag.  Þær Nanna og Oddný sem ráða ríkjum í eldhúsinu báru hitann og þungann af öllu skipulagi og höfðu þær undirbúið allt vel daginn áður. Nemendum var skipt upp í hópa sem komu í eldhúsið og sinntu hinum ýmsu verkum sem tilheyra sláturgerð.  Þetta er annað skólaárið sem dagurinn er haldinn og óhætt er að fullyrða að hann er kærkominn viðbót við skólalífið og hefur nú þegar fest sig í sessi sem vinsæll atburður.  

Piparkökudagurinn var haldinn hátíðlegur miðvikudaginn áttunda desember. Allir nemendur skólans höfðu áður tekið þátt í hönnunarsamkeppni. Nemendur á miðstigi og unglingastigi hönnuðu piparkökuhús og voru þrjú hús valin af sérstakri dómnefnd og ákveðið að þau skyldu bökuð og skreytt af nemendum.  Börnin á yngsta stigi hönnuðu fígúrur af ýmsu tagi. Piparkökudagurinn fór svo í að skreyta fígúrurnar og setja húsin saman og var afraksturinn til mikillar prýði í skólanum á aðventunni.  

Lambastaðanemendur fóru í hinn árlega jólatrésleiðangur inn í Vatnsdal.  Vinunum á leikskólanum,  Vallabóli var boðið með í ferðina.  Jón og Eline á Hofi tóku á móti hópnum og hjálpuðu við að finna fallegt tré sem nú prýðir skólalóðina.  Við þökkum hjónunum á Hofi fyrir góðar móttökur og gómsætar piparkökur.

 

Árshátíð

Árshátíð Húnavallaskóla var haldin föstudaginn 26. nóvember.  Eins og svo ævinlega var skemmtunin metnaðarfull og fjölsótt.  Hátíðin hófst með því að nemendur á unglingastigi fluttu tónlistaratriði og síðan fluttu nemendur í 8. og 9. bekk leikritið Shrek í leikstjórn og leikgerð Jóhönnu Stellu Jóhannsdóttur, umsjónakennara. Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir, leikkkona dvaldi hjá okkur í hálfan mánuð fyrir árshátíðina og aðstoðaði 10. bekkinga við að setja upp stytta leikgerð af leikritinu Gauragangi eftir Ólaf Hauk Símonarson.  Skemmtunin var vel heppnuð og stóðu allir nemendur sig vel í sínum hlutverkum.   Að loknum skemmtiatriðum var að venju boðið upp á glæsilegar kaffiveitingar. Hljómsveitin „Svörtu sauðirnir“ hélt síðan uppi fjörinu til klukkan 01:00.   Allur ágóði af skemmtuninni rann í ferðasjóð tíundu bekkinga sem stefndu á ferðalag til Kaupmannahafnar  vorið 2011. 

 

Litlu-jólin og jólafríið

 

Tíminn leið hratt og senn hófst aðventan.  Föstudaginn 17. desember voru litlu-jólin og að þeirri hátíð lokinni hófst jólafríið.