Annáll ársins 2009

Annáll Húnavallaskóla árið 2009

 

Skólabyrjun 2009

Skólastarf hófst á Húnavöllum þann 5. janúar að loknu jólafríi.  Kennarar mættu þá til starfa en kennsla hófst þann 6. janúar.

 

Rithöfundaheimsókn

Þriðjudaginn 13. janúar komu listamennirnir Iðunn Steinsdóttir og Hjörleifur Hjartarson í heimsókn.  Iðunn tók nemendur og kennara úr 1.-4. bekk með sér og las fyrir þau úr tveimur bókum sínum og höfðu allir gaman af.  Hjörleifur aftur á móti tók að sér 5.-10. bekk.  Hann las fyrir nemendur, sagði þeim sögur, söng og spilaði á gítar og hafði uppi gamanmál eins og honum einum er lagið, þannig að þessar 40 mínútur voru ein samfelld skemmtun.  Þetta ágæta fólk kom til okkar á vegum bókmenntaverkefnisins „Skáld í skólum“ en þeirri dagskrá var hleypt af stokkunum haustið 2006 af Höfundamiðstöð rithöfundasambands Íslands.

 

Öskudagurinn

Að venju var öskudagurinn haldinn hátíðlegur.  Nú bar svo við að margir mótmælendur mættu á staðinn með sína potta og spjöld en voru þó ekki til nokkurra vandræða. Kötturinn var sleginn úr tunnunni og var Svandís Þóra Kristinsdóttir tunnukóngur eða drottning í þetta sinn. Síðan var marserað undir stjórn 10. bekkinga.  Að loknu kaffi var dansað í Kjarnanum þar til yngri nemendurnir fóru heim með skólabílum.  Nemendur í 6.-10. bekk héldu skemmtuninni áfram til klukkan 22:00. 

 

Skíðaferð

9. bekkingar fóru í langþráða skíðaferð til Akureyrar.  Þar dvöldu krakkarnir í tvo daga við skíðaiðkun í Hlíðarfjalli auk þess sem farið var á veitinga- og í kvikmyndahús.  Ferðin var vel heppnuð og skemmtileg þó svo að veðrið hafi sett örlítið strik í reikninginn.  

 

Bingó

Föstudaginn 6. mars var árlegt stórbingó 9. bekkinga haldið í Húnavallaskóla. Nemendur fóru í söfnunarferðir fyrir bingóið, meðal annars til Reykjavíkur og Akureyrar.  Einnig lögðu ýmis fyrirtæki í heimahéraði þeim lið. Afrakstur þessara ferða var góður þrátt fyrir kreppuna í þjóðfélaginu.  Það voru því fjölmargir glæsilegir vinningar í boði og margir fóru klyfjaðir heim. 

     Að loknu bingóinu buðu svo foreldrar 9. bekkinga upp á myndarlegar kaffiveitingar. Skemmtuninni lauk með diskóteki klukkan 00:30.

 

Framsagnarkeppnin

Þrír nemendur úr 7. bekk í Húnavallaskóla voru valdir til að taka þátt í Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi.  Þau sem voru valin til þátttöku í lokakeppninni voru: Anna Kristín Brynjólfsdóttir, Friðrún Fanný Guðmundsdóttir og Óli Jónas Valdemarsson.  Lokakeppnin fór fram 26. mars í Félagsheimilinu Ásbyrgi í Vestur-Húnavatnssýslu. 

     Þetta unga fólk stóð sig með mikilli prýði þó svo að þau næðu ekki þremur efstu sætunum. Sigurvegari keppninnar í ár kom frá Höfðaskóla og heitir Ívan Árni Róbertsson.

 

Skólahreysti

Undankeppni fyrir skólahreysti fór fram á Húnavöllum í febrúarmánuði.  Aðalkeppnin var svo haldin á Akureyri.  Tveir drengir og tvær stúlkur kepptu fyrir hönd Húnavallaskóla. Þetta voru þau Brynjar Geir Ægisson, Hjörtur Þór Magnússon, Harpa Birgisdóttir og Írena Ösp Sigurðardóttir. Aðrir unglingar skólans skipuðu öflugt klapplið og hvöttu félaga sína til dáða.  Húnvellingar lentu að lokinni mikilli keppni í 6. sæti af þeim 15 skólum sem skipuðu riðilinn. Grunnskólinn á Siglufirði fór með sigur af hólmi.

 

Hundur í óskilum

Félagarnir sem skipa dúettinn Hundur í óskilum komu í heimsókn í skólann í marsmánuði.  þetta eru þeir Eiríkur G. Stephensen og Hjörleifur Hjartarson.  Það má segja að þeir hafi farið á kostum í flutningi sínum og haldið áhorfendum hugföngnum.  Við fengum að kynnast lúðrasveitinni Eiríki, sirkusi sem sýndi áhættuatriði á blokkflautu en á hana var leikið með nefi, auga og nafla. Ennfremur fengum við að sjá tyrkneskan óbóleikara og mörg önnur stórkostleg atriði.  Okkur var sýnt fram á í tónum og tali hversu margslungið og teygjanlegt listform tónlistin er.

     Þessi heimsókn var á vegum verkefnisins „Tónlist fyrir alla“ og var að venju afar vel heppnuð. 

 

Skákmót

Kjördæmismót í skólaskák fyrir Norðurland vestra var haldið í Húnavallaskóla seinnipart vetrar. Mótsstjóri var Jón Arnljótsson á Ytri-Mælifellsá í Skagafirði.  Eingöngu nemendur í Húnavallaskóla tóku þátt í mótinu að þessu sinni. Í eldri flokki sigraði Hjörtur Þór Magnússon og í yngri flokki Guðmar Magni Óskarsson.  Þeir áunnu sér rétt til þátttöku á landsmóti sem haldið var á Akureyri dagana 30. apríl til 3. maí.  Hjörtur Þór tók þátt í landsmótinu sem fulltrúi Norðurlands vestra og hlaut hann einn og hálfan vinning.  Það verður að teljast mjög góð frammistaða því þarna voru saman komnir allir bestu skákmenn landsins í þessum aldursflokki. 

 

Íþróttamót

Skólarnir í Húnavatnssýslum héldu sitt árlega íþróttamót fyrir nemendur í 7.-10. bekk þann 2. mars. Mótið var haldið á Húnavöllum og fóru Húnvellingar með sigur af hólmi með 17,5 stig og í öðru sæti var Grunnskóli Húnaþings vestra með 16 stig.  Að lokinni íþróttakeppni var síðan haldið diskótek undir styrkri stjórn Hinriks Norðfjörð Valssonar, danskennara.

 

Danskennsla

Hinrik Norðfjörð Valsson, danskennari kom í sína árlegu heimsókn að Húnavöllum síðustu vikuna fyrir páskafrí.  Að venju lauk kennslunni með sýningu fyrir foreldra og ættingja og að henni lokinni hófst páskafríið.

 

Stærðfræðikeppni

Stærðfræðikeppni fyrir nemendur úr 9. bekk er haldin á hverju ári.  Þessi keppni er samstarfsverkefni FNV, grunnskóla, stofnana og fyrirtækja á Norðurlandi vestra.  Tveir nemendur úr Húnavallaskóla komust í úrslit í keppninni, þeir Brynjar Geir Ægisson og Hjörtur Þór Magnússon. Þeir stóðu sig prýðilega þó svo að þeir næðu ekki í efstu sætin. Kennarar í FNV bera hitann og þungann af samningu og yfirferð keppnisgagna.  110 nemendur tóku þátt í forkeppninni og aðeins 16 efstu komust í úrslit.

         

Vorverkefni

Vorverkefni 5.-9. bekkjar hófst 12. maí. Þema verkefnisins var „Vélar og tækni“ Nemendur fengu verkefnið afhent og síðan var farið í vettvangsferð.  Farið var í heimsókn að Bólstaðarhlíð þar sem Kolbeinn bóndi svaraði ótal spurningum á meðan tæki og tól voru skoðuð.  Að lokinni skoðunarferðinni buðu þau hjón, Kolbeinn og Sólveig upp á glæsilegar veitingar. Vorverkefni 1.-4. bekkjar var tileinkað umhverfi og endurvinnslu og var í nógu að snúast hjá yngstu nemendunum.     

 

Vorferðalög

Nemendur í 1.-4. bekk fóru á Blönduós og skoðuðu Hafíssetrið.  Þaðan var haldið að Þingeyrarkirkju þar sem Erlendur Eysteinsson meðhjálpari og staðarhaldari við kirkjuna tók á móti þeim og kynnti þeim sögu staðarins.  Þá var ekinn hringur í Vatnsdalnum og kúabúið á Hnjúki heimsótt þar sem Magnús Sigurðsson,bóndi tók á móti hópnum með kostum og kynjum.  Að lokum var áð í Flóðvangi þar sem snætt var nesti áður en haldið var heim.  5., 6. og 7. bekkur heimsóttu Eyjafjörðinn.  Siglt var út í Hrísey og eyjan skoðuð í krók og kima. Síðan  var ekið til Akureyrar, farið í sund og síðan pizzuveislu áður en farið var heim.  8. og 9. bekkur lögðu leið sína í Skagafjörðinn. Komið var við í Víðimýrarkirkju og þaðan ekið að Bakkaflöt þar sem farið var í þriggja tíma flúðasiglingu á Jökulsá Vestari.  Eftir siglinguna var borðað nesti og síðan haldið í Varmahlíð og farið í klettasig og sund.  Að lokum var svo pizzahlaðborð í Ólafshúsi á Sauðárkróki.  Þennan sama dag fór 10. bekkur til Akureyrar þar sem Mennta- og Verkmenntaskólinn voru heimsóttir.  Að morgni 13. maí fóru svo útskriftarnemarnir ásamt umsjónarkennara sínum og einu foreldri til Kaupmannahafnar í hina árlegu útskriftarferð.  Hópurinn dvaldi í borginni við sundin í 6 daga og skemmti sér vel.

 

Lokadagur og skólaslit

Lokadagur Húnavallaskóla á þessu skólaári varmiðvikudaginn 27. maí. Dagurinn var á léttum nótum með leikjum og glensi.   Skólanum var síðan slitið við hátíðlega athöfn föstudaginn 29. maí klukkan 14:00.

 

Upphaf skóla haustið 2009

Kennarar við Húnavallaskóla mættu til vinnu að loknu sumarleyfi 18. ágúst. Þann dag var haldið námskeið á Skagaströnd.  Námskeiðið bar yfirskriftina „Agastjórnun í skólastarfi“.  Helgi Arnarson, skólastjóri í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði var stjórnandi á námskeiðinu.  Kennarar í Húnavallaskóla voru ánægðir með þetta námskeið. Formlegt skólastarf  hófst með skólasetningu þriðjudaginn 25. ágúst.  67 nemendur hófu nám í skólanum haustið 2009. Fyrstu námsönninni lauk föstudaginn 6. nóvember og ný hófst með foreldraviðtölum og einkunnaafhendingu þriðjudaginn 10. nóvember.  

 

Ýmislegt frá haustönn 2009

Halda átti dag stærðfræðinnar 24. september en vegna vætu og leiðinlegs tíðarfars varð að fresta verkefnunum sem búið var að undirbúa fyrir daginn.  Hefð hefur skapast fyrir því að brjóta upp kennslu og nemendur glíma við margvísleg stærðfræðiverkefni við óhefðbundnar aðstæður, bæði úti og inni. Eftir hádegi hefur svo Norræna skólahlaupið verið haldið.  Nú varð þetta verkefni að bíða betri tíma.  Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur 16. nóvember á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar.  Nemendur voru með upplestur og söng í Kjarna.    Þennan dag hófst formlega Stóra-upplestrarkeppnin, sem í Húnavatnssýslum er tileinkuð Grími Gíslasyni heitnum undir heitinu Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi. Það voru nemendur í 7. bekk sem tóku þátt í keppninni sem haldin var í Höfðaskóla á Skagaströnd þann 18. mars.

Samræmd könnunarpróf í 4.,7. og 10.  bekk voru haldin dagana 14. - 18. september. Í þessum bekkjum var prófað í stærðfræði og íslensku auk ensku í 10. bekk.  Markmið þessara prófa er að foreldrar og kennarar sjái stöðu barna sinna og nemenda í samanburði við öll börn á sama aldri á landsvísu.

Allir bekkir skólans hafa haldið bekkjarkvöld á haustönninni.  Nemendur skemmta sér almennt vel á þessum kvöldum og fá að njóta sín hver á sinn hátt.  Diskótek hafa einnig verið haldin og hafa nemendur verið með sérstök „þemu“ sem hafa oft verið mjög skemmtileg. Lambastaðafjörið var einnig á sínum stað og var fjörugt að venju.

Öllum nemendum og kennurum var boðið að Akri í haust.  Markmið heimsóknarinnar var að fylgjast með og fræðast af Guðmundi Hallgrímssyni, Ritu, Ástu og Stínu frá Ullarselinu á Hvanneyri. Guðmundur var mættur til að rýja ærnar og kvenpeningurinn var með rokka og kamba í farteskinu.  Nemendur fengu ull sem þeir kembdu og spunnu undir faglegri leiðsögn.  Við þökkum bændum á Akri og góðum gestum þeirra fyrir fróðlega og skemmtilega samveru.

Sú skemmtilega nýjung var tekin upp í haust að nemendur og starfsfólk sameinuðust í sláturgerð fyrir mötuneytið.  Sláturgerðin fór fram undir styrkri stjórn Oddnýjar og Gullu, sem í haust tóku við stjórn mötuneytisins. Á aðventunni hafði Oddný veg og vanda af miklum piparkökudegi. Skólabyggingin var fyrirmynd að piparkökuhúsi. Nemendur skreyttu einingar hússins sem Oddný setti síðan saman.  Jafnframt þessu voru hinar ýmsu fígúrur mótaðar, bakaðar og skreyttar. Sláturgerðardagurinn og piparkökudagurinn eru skemmtilegar nýjungar og vonandi festa þeir sig í sessi og verða hluti af hinum mörgu hefðum sem skólastarfið byggir á.  Hér með er þeim Gullu og Oddnýju færðar bestu þakkir fyrir frábært innlegg í skólalífið. 

Félagar frá Gideonfélaginu komu í sína árlegu heimsókn og færðu nemendum 5. bekkjar Nýja testamentið og Davíðssálma að gjöf.

Þriðjubekkingar fengu heimsókn frá slökkviliðinu og Lionsklúbbnum á Blönduósi. Heimsóknin var vegna sameiginlegs átaks framangreindra aðila í eldvörnum. Slökkviliðsstjórinn hvatti til varkárni í umgengni við eld og kynnti og vakti athygli á nauðsyn eldvarna á hverju heimili. Nemendur fengu að gjöf litabók og söguna af Loga og Glóð og Brennu-Vargi en í sögunni er að finna allar upplýsingar sem þarf til að leysa Eldvarnargetraunina.  Niðurstöður úr getrauninni lágu svo fyrir á 112 deginum um vorið.

 Að venju fór allur hópurinn á Lambastöðum í jólatrésleiðangur að Hofi í Vatnsdal í byrjun desember.  Hópurinn valdi fallegt jólatré sem ljósum skreytt  prýddi skólalóðina yfir hátíðirnar og fram á nýja árið.


Árshátíð

Árshátíð Húnavallaskóla var haldin fyrir fullu húsi föstudaginn 27. nóvember. Hátíðin heppnaðist mjög vel. Flutt voru tónlistaratriði undir stjórn Benedikts Blöndal og Skarphéðins Einarssonar.  Jóhanna Stella Jóhannsdóttir leikstýrði 8. og 9. bekk í leikritinu „Ástríkur og þrautirnar fimm“.  10. bekkur sýndi stytta útgáfu af leikverkinu „Abbababb“ sem Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir, leikkona leikstýrði.  Nemendur stóðu sig með mikilli prýði og skemmtu áhorfendur sér vel. Að loknum skemmtiatriðum var að venju boðið upp á glæsilegar kaffiveitingar.  Hljómsveitin „Svörtu sauðirnir“ hélt síðan uppi fjörinu til klukkan 01:00.   Allur ágóði af skemmtuninni rann í ferðasjóð tíundu bekkinga sem stefndu á ferðalag til Kaupmannahafnar um vorið.


Litlu-jólin og jólafríið

Tíminn leið hratt og senn hófst aðventan.  Föstudaginn 18. desember voru litlu-jólin og að þeirri hátíð lokinni hófst jólafríið.