Annáll ársins 2008

                                  Annáll Húnavallaskóla árið 2008

Skólabyrjun 2008

Skólastarf hófst á nýju ári þann 7. janúar með starfsdegi kennara.  Kennsla hófst þriðjudaginn 8. janúar. 

Öskudagurinn

Löng hefð er fyrir „Öskudagsfjöri“  í Húnavallaskóla.  Öskudagsins er jafnan beðið með eftirvæntingu og þannig var það í ár.  Nemendur mættu til skemmtunarinnar í margvíslegum búningum og höfðu vandað val þeirra mjög.  Kötturinn var sleginn úr tunnunni og tunnukóngurinn að þessu sinni var Hólmfríður Lilja Birgisdóttir úr 7. bekk sem var í gervi Barts Simpsons.  Eftir að hafa marserað í íþróttasalnum var endað í borðsalnum þar sem boðið var upp á veitingar.  Að kaffiveitingum loknum var diskótek fyrir 1.-5. bekk til kl. 16.00.  Nemendur í 6.-10. bekk héldu skemmtuninni áfram til kl. 22.00.  Fjörið heppnaðist mjög vel.   

Myndlist

Sigurdís Harpa Arnarsdóttir, myndlistarmaður dvaldi hjá okkur í 10 daga í vetur.  Nemendur og kennarar nutu leiðsagnar Sigurdísar í myndlistinni og lauk þessum tíma með sýningu á verkum þeirra. Þetta er í annað skiptið sem Sigurdís annast myndlistarnámskeið hjá okkur og óhætt er að segja að þau hafi skilað miklu.

Skólahreysti

Þann 28. febrúar var mikil spenna hjá unglingum í Húnavallaskóla.  Leið þeirra lá austur til Akureyrar að taka þátt í skólahreystimóti.  Áður hafði verið haldin keppni innan skólans þ.e. í 9. og 10. bekk.  Tveir drengir og tvær stúlkur kepptu fyrir skólans hönd.  Þetta voru þau Anný Mjöll Sigurðardóttir, Höskuldsstöðum Haraldur Páll Þórsson, Brúarhlíð og Sigmar Guðni Valberg, Auðkúlu II, öll úr 10. bekk og Harpa Birgisdóttir, Kornsá úr 9. bekk.  Aðrir unglingar skólans skipuðu öflugt klapplið og hvöttu sitt fólk til dáða.  Keppendur stóðu sig mjög vel og sigraði Anný Mjöll í hreystigreip en þar keppa stúlkur í því að hanga sem lengst á slá.  Að lokum lentu Húnvellingar í 6. sæti riðilsins en í honum voru ellefu lið. 

Rithöfundaheimsókn

Höfundamiðstöð Rithöfundasambandsins sendi okkur tvo góða gesti í mars.  Þetta voru þeir Einar Kárason og Einar Már Guðmundsson.  Þeir sögðu frá starfi sínu, lásu úr verkum sínum og spjölluðu við nemendur eins og þeim einum er lagið.

Bingó

Árlegt Bingó 9. bekkjar var haldið föstudaginn 7. mars.  Undirbúningur hófst strax eftir áramótin og sýndu nemendur mikinn dugnað við söfnun vinninga og annan undirbúning.  Að venju var mikið fjölmenni enda bingóhátíðin víðfræg fyrir glæsilega vinninga sem og góða skemmtun.  Nemendur og umsjónarkennari 9. bekkjar ásamt foreldrum eiga þakkir skildar fyrir ánægjulega kvöldstund.  Allur ágóði af skemmtuninni rennur í ferðasjóð 9. bekkinga.     

Íþróttamót

Skólarnir í Húnavatnssýslum héldu sitt árlega íþróttamót fyrir nemendur í 7.-10. bekk þann 13. mars.  Mótið var að þessu sinni haldið á Blönduósi.

Danskennsla

Hinrik Norðfjörð Valsson kom í sína árlegu heimsókn að Húnavöllum síðustu vikuna fyrir páskafrí.  Að venju lauk kennslunni með sýningu fyrir foreldra og ættingja og að henna lokinni hófst páskafríið.

Framsagnarkeppnin

Framsagnarkeppni grunnskólanna fjögurra í Húnavatnssýslum var haldin á Húnavöllum þann 3. apríl.  Keppni skólanna í Húnavatnssýslum er tileinkuð Grími heitnum Gíslasyni frá Saurbæ í Vatnsdal.  Mikill undirbúningur er alla jafna í skólanum fyrir þessa keppni sem hefst formlega á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember sem er jafnframt fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar.  Fulltrúar Húnavallaskóla voru þau Bragi Hólm Birkisson, Höllustöðum, Eydís Sigurðardóttir , Syðri-Grund og Óskar Eyvindur Óskarsson, Steiná II.  Þau stóðu sig öll mjög vel og hafnaði Eydís í fyrsta sæti og Bragi fékk sérstök aukaverðlaun fyrir vandaðan lestur.

Skíðaferð

 9. bekkingar fóru í skíðaferð strax eftir páskafrí.  Dvöldu  krakkarnir í tvo daga við skíðaiðkun í Hlíðarfjalli auk þess sem farið var á veitingahús og kvikmyndahús.  Nemendur voru iðnir á skíðunum og fljótir að ná góðri færni eftir leiðsögn skíðakennara.

Skólaskák

Kjördæmismót í skólaskák fyrir Norðurland vestra var haldið í Húnavallaskóla nú á vordögum.  Mótsstjórn annaðist Jón Arnljótsson á Ytri-Mælifellsá í Skagafirði.  Sigurvegari í eldri flokki var Kristinn Justiniano Snjólfsson úr Grunnskólanum á Blönduósi og í öðru sæti varð Hjörtur Þór Magnússon, Steinnesi í 8. bekk Húnavallaskóla.  Sigurvegari í yngri flokki var Atli Einarsson, Bólstaðarhlíð úr Húnavallaskóla og í öðru sæti hafnaði Óskar Eyvindur Óskarsson, Steiná II úr Húnavallaskóla.  Sigurvegari í eldri flokki ávann sér þátttökurétt á landsmóti sem fram fór í Bolungarvík dagana 24.-27. apríl.  Hjörtur Þór var óvænt kallaður til leiks á mótið á síðustu stundu þar sem sigurvegarinn hafði forfallast.  Hjörtur hafnaði í 10.-12. sæti sem er töluvert afrek því þarna voru samankomnir sterkustu skákmenn landsins í unglingaflokki.       

Tónlist fyrir alla

Þann 9. apríl kom Ólafur Elíasson sem er einn af fremstu píanóleikurum landsins að Húnavöllum.  Heimsókn hans var á vegum verkefnisins „Tónlist fyrir alla“.  Tónleikar Ólafs voru stórkostleg skemmtun og leið tíminn hratt á meðan þeir stóðu yfir.

Vorverkefni

Vorverkefni 5.-9. bekkjar hófst 15. maí.  Þema verkefnisins var „Kýrin“.  Nemendur fengu verkefnið afhent og síðan var farið í vettvangsferð.  Heimsótt var kúabúið á Höskuldsstöðum á Skaga en þar hefur verið byggt mjög nýtískulegt fjós sem er með þeim fullkomnustu á landinu.  Þau Ólafur Tryggvi Kristjánsson og Aldís Kristín Hreinsdóttir, bændur á Höskuldsstöðum sögðu frá þeim miklu breytingum sem nýja fjósið hefur í för með sér bæði fyrir menn og skepnur.  Vorverkefni 1.-4. bekkjar var tileinkað „Gamla tímanum“.  Nemendur nýttu sér vorferðalagið til undirbúnings á því.

Vorferðalög

Nemendur í 1.-4. bekk fóru í Skagafjörðinn og skoðuðu m.a. Víðimýrarkirkju og Byggðasafnið í Glaumbæ.  Nemendur í 5.-6. bekk fóru einnig í Skagafjörðinn og heimsóttu Hóla í Hjaltadal.  Eftir að hafa skoðað þennan sögufræga stað var farið í flúðasiglingu á Blöndu og að því loknu í sund í Varmahlíð þar sem nemendur skoluðu af sér ferðarykið fyrir heimferðina.  8. og 9. bekkingar ferðuðust um Snæfellsnesið dagana 13. og 14. maí.  Fyrri daginn var farið í svokallaða Suðureyjaferð en það er skemmtisigling um Suðureyjar Breiðafjarðar.  Að lokinni siglingunni var farið í sund í Stykkishólmi.  Frá Stykkishólmi var ekið í náttstað í Laugagerðisskóla.  Daginn eftir var ekið að Búðum og Arnarstapa og síðan áfram vestur fyrir Snæfellsnes og norður um.  Komið var við í Bjarnarhöfn þar sem kirkjan og hákarlaverkunin voru skoðuð.  Mjólkursamlagið í Búðardal var síðasti viðkomustaðurinn áður en haldið var heim á leið.  Nemendur í tíunda bekk lögðu af stað í hina árlegu útskriftarferð aðfaranótt 13. maí. Kaupmannahöfn, höfuðborg Danaveldis var heimsótt að venju og dvöldu nemendur og fararstjórar þar í góðum fögnuði í eina viku.  Þessar ferðir voru afar vel heppnaðar og öllum til mikillar ánægju.

Lokadagur og skólaslit

Lokadagur skóla var miðvikudaginn 28. maí og skólaslit föstudaginn 30. maí.  Sérstakar viðurkenningar í formi bókaverðlauna við útskrift hlutu þær Anný Mjöll Sigurðardóttir, Höskuldsstöðum  fyrir góðan námsárangur í íslensku, dönsku og stærðfræði og Ingibjörg Jónína Finnsdóttir, Köldukinn fyrir góðan námsárangur í ensku, náttúrufræði og samfélagsfræði.  Á þessum skólaslitum var Helga Búadóttir, kennari að ljúka löngum og farsælum starfsferli við Húnavallaskóla og var hún heiðruð sérstaklega af því tilefni.  Helga hóf störf við skólann haustið 1971, þá sem ráðskona og hafði þá um sumarið veitt forstöðu sumarhóteli sem starfrækt var í húsnæði skólans.  Helga Búadóttir hefur lengstan starfsferil allra sem starfað hafa við Húnavallaskóla og starfaði við skólann nánast alla tíð frá árinu 1971 og lengst af sem kennari.  Á skólaárinu 2006-2007 var Húnavallaskóli tilnefndur til úthlutunar á Laxness-fjöðrinni af Grunnskólanum á Þórshöfn á Langanesi.  Til nánari útskýringar skal frá því greint að í Reykjanesbæ stendur listaverkið Laxness-fjöðrin eftir Erling Jónsson myndhöggvara, mótuð í líkingu arnarfjaðrar.  Erlingur Jónsson, sem áður var kennari í Keflavík en hefur um margra ára skeið verið búsettur í Noregi, hefur margoft sótt innblástur í verk Halldórs Laxness.  Hann gaf fjölda af afsteypum af Laxness-fjöðrinni sem hann ætlar ungu fólki sem hefur sýnt góð tök á móðurmálinu.  Að frumkvæði hans varð til hópur fólks sem hefur tekið að sér að úthluta fjöðrinni.  Þrír fulltrúar hópsins voru viðstaddir skólaslitin til að úthluta þessari viðurkenningu en það voru þau Vésteinn Ólason, forstöðumaður   Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og þau Birgir Guðnason og Sóley Birgisdóttir fulltrúar Listasafns Reykjanessbæjar.  Þau Harpa Birgisdóttir, Kornsá, nemandi í níunda bekk og Hjörtur Magnússon, Steinnesi, nemandi í  áttunda bekk voru veittar viðurkenningar fyrir vandaða ritgerðasmíð.  Húnavallaskóli sendi síðan fjöðrina suður yfir heiðar og tilnefndi Rimaskóla í Reykjavík fyrir skólaárið 2008-2009.    

Upphaf skóla haustið 2008

Kennarar við Húnavallaskóla mættu til vinnu að loknu sumarleyfi 15. ágúst. Þann dag var haldið námskeið í félagsheimilinu á Hvammstanga.  Fyrirlesari á námskeiðinu var Bragi Guðmundsson, prófessor við Háskólann á Akureyri.  Bragi útskýrði hvernig staðarmenning hvers skóla leggur skólunum ótakmörkuð tækifæri í hendur til að auka fjölbreytni í viðfangsefnum í öllum námsgreinum og fyrir alla aldurshópa.  Kennarar voru almennt ánægðir með þetta námskeið.  Formlegt skólastarf  hófst með skólasetningu mánudaginn 25. ágúst.  70 nemendur hófu nám í skólanum haustið 2008.  Fyrstu námsönninni lauk mánudaginn 10. nóvember og ný hófst með foreldraviðtölum og einkunnaafhendingu þriðjudaginn 11. nóvember.

Ýmislegt frá haustönn 2008

Jasssveitin Miriams Acoustic Group  kom og hélt tónleika í skólanum.  Sveit þessa skipa þrjár pólskar stúlkur sem leika á fiðlu, trommur og píanó og íslenskur piltur Haraldur Ægir Guðmundsson sem leikur á kontrabassa.  Einnig voru hér á ferð Tríóið Guitar Islancio.  Tríó þetta er skipað Þeim Birni Thoroddsen, gítarleikara Gunnari Þórðarsyni, gítarleikara og Jóni Rafnssyni, kontrabassaleikara.  Þeir félagar fluttu okkur íslensk þjóðlög sem þeir hafa sjálfir endurútsett á skemmtilegan hátt og í sumum lögunum sungu nemendur með.  Þrír nemendur í 10. bekk léku með þeim þjóðlagið „Krummi svaf í Klettagjá“.  Þetta voru þau Brynjar Óli Brynjólfsson, Brandsstöðum sem lék á trommur, Harpa Birgisdóttir, Kornsá á þverflautu og Sigurdís Sandra Tryggvadóttir, Ártúnum á píanó og aðrir nemendur skólans sungu með.

 

                        Dagur stærðfræðinnar var á sínum stað. Þennan dag glímdu nemendur við margvísleg stærðfræðiverkefni við óhefðbundnar aðstæður, bæði úti og inni.  Eftir hádegið var Norræna skólahlaupið þreytt.  Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur 17. nóvember.  Margir nemendur tileinkuðu upplestur sinn Steini Steinarr sem átti einnar aldar fæðingarafmæli nú í ár.  Þennan dag hófst formlega Stóra-upplestrakeppnin, sem í Húnavatnssýslum er tileinkuð Grími heitnum Gíslasyni undir heitinu Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi. Það eru nemendur í 7. bekk sem taka þátt í keppninni. 

 

                        Samræmd könnunarpróf í 4. og 7. bekk voru haldin 16. og 17. október. Í þessum bekkjum er prófað í stærðfræði og íslensku.  Markmið þessara prófa er að foreldrar og kennarar sjái stöðu nemenda í samanburði við öll börn á sama aldri á landsvísu. 

 

                        Ábyrgir „einstæðir foreldrar“ yfirgáfu skólann föstudaginn 17. október.  Þessa helgi tóku flestir nemendur í 8., 9. og 10. bekk þátt í verkefninu hugsað um barn.  Hver nemandi fékk eina dúkku til að hugsa um og hafði hana yfir helgina.  Dúkkan er tölvustýrð og hermir eftir hljóðum og atferli ungbarna.  Unglingurinn þarf að sinna „barninu“ allan sólarhringinn og ekki er hægt að komast hjá því.  Verkefnið vakti ánægju nemenda en sumir voru þreyttir og framlágir þegar „barninu var skilað á mánudagsmorgni. 

 

                        Allir bekkir skólans héldu bekkjarkvöld á haustönninni.  Eins og alltaf þá er mikið fjör á þessum kvöldum.  Auk bekkjarkvöldanna voru haldin tvö diskótek. Vissulega var Lambastaðafjörið fjörugt að venju og sýningaratriði fjölbreytt þar sem flestir lögðu eitthvað til málanna. 

 

                        Vikuna 3.-7. nóvember dvöldu nemendur 8.-9. bekkjar, ásamt umsjónarkennara, að Laugum í Sælingsdal.  Á Laugum eru reknar ungmenna- og tómstundabúðir á vegum UMFÍ.  Nemendur úr Langholtsskóla í Reykjavík voru einnig þarna þessa viku og náðu krakkarnir vel saman.  Skipulögð námskeið af ýmsu tagi voru frá klukkan 9:00 – 17:00 en eftir það var frjáls tími.  Á kvöldin voru síðan ýmsir viðburðir, einn á hverju kvöldi.  Krakkarnir höfðu bæði gagn og gaman af þessari ferð og komu heim hæstánægðir.  Þau höfðu eignast nýja vini og kynnst hvort öðru enn betur.   

 

                        Rauðakrossdeildin í Austur-Húnavatnssýslu heimsótti 7. bekk og hélt kynningu á starfsemi sinni. Það voru þau Hafdís Vilhjálmsdóttir og Einar Óli Fossdal sem sögðu nemendum sögu og uppruna Rauðakross hreyfingarinnar en hún er elsta, virtasta og útbreiddasta mannúðarhreyfing í heimi.  Þau sögðu frá því að 50 deildir innan hreyfingarinnar væru starfræktar á Íslandi.  Að lokinni frásögn þeirra Hafdísar og Óla fengu nemendur að skoða nýjan sjúkrabíl sem kom hingað á svæðið sl. vor.  Einar Óli gaf góða innsýn í öll tæki og tól sem eru til staðar í bílnum og sjúkraflutningamenn nota ef slys verða.  

 

                        Í upphafi aðventunnar fór allur hópurinn á Lambastöðum í jólatrésleiðangur að Hofi í Vatnsdal.  Hópurinn valdi fallegt jólatré sem var til mikillar prýði á lóð skólans.       

Árshátíð

Árshátíð Húnavallaskóla var haldin fyrir fullu húsi föstudaginn 28. nóvember. Hátíðin heppnaðist vel og óhætt er að segja að allur undirbúningur hafi verið metnaðarfullur og skilað sér vel að venju.  Flutt voru tónlistaratriði undir stjórn Skarphéðins Einarssonar og Benedikts Blöndal, Jóhanna Stella Jóhannsdóttir leikstýrði 8. og 9. bekk í leikritinu Glanni Glæpur kemur í Latabæ, nokkrar stúlkur úr 8. og 9. bekk dönsuðu línudans sem Kristín Lára og Kristjana Stella þjálfuðu.  Hápunktur kvöldsins var síðan uppfærsla Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur, leikkonu með 10. bekk á söngleiknum Grease.  Eins og alltaf þá stóðu nemendur sig með miklum sóma og heilluðu áhorfendur, jafnt unga sem aldna.  Hljómsveitin „Svartir sauðir“ hélt síðan uppi fjörinu á dansleiknum sem fylgdi á eftir og var frammistaða piltanna sem hljómsveitina skipa með miklum ágætum en allir eru þeir gamlir nemendur úr Húnavallaskóla.  Á meðan dansinn dunaði voru foreldrar og forráðamenn með glæsilega kaffisölu.  Allur ágóði af skemmtuninni rann í ferðasjóð tíundu bekkinga.  Söngleikurinn var síðan sýndur í Félagsheimilinu á Blönduósi mánudaginn 29. desember fyrir fullu húsi.  Þetta var fimmta árið í röð sem söngleikur sem settur hafði verið upp á árshátíð skólans var sýndur á Blönduósi á milli jóla og nýárs. 

 Litlu-jólin og jólafríið

Enn á ný var aðventan hafin.  Föstudaginn 19. desember voru litlu-jólin haldin hátíðleg og síðan hófst jólafríið.