Annáll ársins 2007

Frá Húnavallaskóla

Skólabyrjun 2007
Skólastarf hófst á nýju ári þann 4. janúar með starfsdegi kennara.  Kennsla hófst föstudaginn 5. janúar.  Á nýju ári urðu breytingar á kennaraliði skólans.  Áslaug Inga Finnsdóttir, umsjónarkennari í 7. bekk og Valgerður Guðrún Bjarkadóttir, fóru í fæðingarorlof.  Þær Guðrún Bjarkadóttir og Eva Therése Thörn tóku við störfum þeirra.

Söngur og gleði
Á skólaárinu kviknaði sú hugmynd að hafa skólasöng á sal fyrir alla nemendur einu sinni í mánuði.  Að beiðni Þorkels Ingimarssonar, skólastjóra samdi  Arnar Einarsson skólastjóri Grunnskólans á Þórshöfn og fyrrverandi skólastjóri Húnavallaskóla fyrir okkur skemmtilegan skólasöng.  Þær Þórunn Ragnarsdóttir og Kristín Jóna Sigurðardóttir umsjónarkennarar í 1.- 4. bekk settu saman hið glæsilega sönghefti Húnavallaskóla sem ber heitið „Gólína“.  Söngelskir Húnvellingar voru hinir ánægðustu með þessa tíma og fannst að þeir mættu vera oftar.

Öskudagurinn
Að venju var öskudagurinn haldinn hátíðlegur.  Sjálfur konungur rokksins Elvis Presley ásamt Línu langsokk, prinsum, prinsessum og mörgum fleirum mættu í skólann til að skemmta sér og öðrum.  Kötturinn var sleginn úr tunnunni og að þessu sinni varð Jón Árni Magnússon í 10. bekk tunnukóngur.  Að kaffiveitingum loknum var diskótek fyrir 1.-5. bekk til kl. 16.00.  Nemendur í 6.-10. bekk héldu skemmtuninni áfram til kl. 22.00. Diskótekið var kallað „Hinseginball“ því þar klæddust strákarnir kvenmannsfötum og stelpurnar karlmannsfötum.

Íþróttadagurinn
Í febrúar fóru nemendur í 8., 9. og 10. bekk í skólaheimsókn á Laugarbakka þar sem nemendur  Grunnskóla Húnaþings vestra voru sóttir heim.    Keppt var í hinum ýmsu íþróttagreinum og leikjum og endað með diskóteki um kvöldið.

Bingó
Föstudaginn 9. mars var árlegt stórbingó 9. bekkjar haldið.  Nemendur fóru í söfnunarferðir fyrir bingóið,  meðal annars var farið til Reykjavíkur og Akureyrar.  Ýmis fyrirtæki og stofnanir heima í héraði lögðu þeim einnig lið.  Afrakstur þessara ferða var feikilega góður að venju og fjölmargir glæsilegir vinningar í boði.  Skemmtun þessi var fjölsótt þrátt fyrir slæmt veður.  Foreldrar nemenda í 9. bekk sáu um kaffiveitingar að loknu bingóinu og lauk hátíðinni með diskóteki sem stóð til kl. 00.30.     

Skíðaferð
9. bekkingar fóru í langþráða skíðaferð til Akureyrar.  Þar dvöldu krakkarnir í tvo daga við skíðaiðkun í Hlíðarfjalli auk þess sem farið var á veitingahús og kvikmyndahús.  Nemendur voru iðnir við skíðaiðkun og fljótir að ná góðri færni eftir leiðsögn skíðakennara.

Heimsóknir
Stefán Geir Sigurbjörnsson, tollvörður kom í heimsókn að Húnavöllum.  Hann var með leitarhund með sér og sagði okkur frá starfsemi tollvarða og skaðsemi eiturlyfja.  Fyrirlestur Stefáns var mjög fróðlegur og voru nemendur duglegir að spyrja út í ýmis atriði.  Tónlistarmaðurinn Guðni Fransson heimsótti okkur í gervi tónsmiðsins Hermesar, á vegum verkefnisins „Tónlist fyrir alla“.  Dagskrána sem Guðni flutti kallaði hann „Sigling“ (Hafið bláa hafið).  Þar lagði hann út af samnefndu kvæði eftir Örn Arnarson og byggði dagskrána á hugleiðingum um ljóðið í tónum og tali.  Guðni flutti stór og smá tónverk sem tengdust efni ljóðsins á einn eða annan hátt.  Við létum hugann reika bak við ystu sjónarrönd og ferðuðumst til draumalanda og upplifðum einnig náttúru hafsins í tónum, kraft vindsins og hugarflug æskunnar.  Þessar fjörutíu mínútur sem dagskráin tók liðu hratt og skemmtu allir sér hið besta við flutning þessa snjalla listamanns.

Danskennsla
Hinrik Norðfjörð Valsson kom í sína árlegu heimsókn að Húnavöllum. Nemendur nutu leiðsagnar hans í dansinum síðustu vikuna fyrir páskafrí.  Að venju lauk kennslunni með sýningu fyrir foreldra og ættingja.

Íþróttamót
Skólarnir í Austur-Húnavatnssýslu sem eru Grunnskólinn á Blönduósi, Húnavallaskóli og Höfðaskóli á Skagaströnd héldu sitt árlega íþróttamót fyrir nemendur í 7.-10. bekk þann 30. mars.  Mótið var haldið á Skagaströnd að þessu sinni og að því loknu hófst páskafríið.

Framsagnarkeppnin
Framsagnarkeppni grunnskólanna fjögurra í Húnavatnssýslum var haldin á Blönduósi 22. mars.  Þau Hjörtur Þór Magnússon í Steinnesi, Sandra Haraldsdóttir á Grund og Stefán Logi Grímsson á Reykjum, sem áður höfðu verið efst á forkeppni innan skólans, tóku þátt í lokakeppninni fyrir hönd Húnavallaskóla.  Þau stóðu sig öll mjög vel og varð Stefán Logi í öðru sæti og Sandra í því þriðja.  Sigurvegarinn að þessu sinni kom frá Grunnskóla Húnaþings vestra og heitir Daníel Ingi Sigþórsson.

Föndurdagur
Foreldrar barna í 1.-5. bekk buðu upp á sameiginlegan föndurdag um miðjan mars.  Foreldrar og börn áttu saman ánægjulega stund þar sem margt fallegt var útbúið fyrir páskana.

Vorverkefni
Vorverkefni 5.-9. bekkjar hófst föstudaginn 11. maí.  Verkefnið fjallar um sauðkindina.  Nemendur fengu afhent verkefnið og var farið í skoðunarferð fram í Vatnsdal.  Ekinn var hringurinn í Vatnsdalnum og söguslóðir skoðaðar, ásamt tveimur nýjum fjárhúsum, á Hofi og Hjallalandi.  Á báðum stöðum var sauðburður í fullum gangi og mikið um að vera.  Bændurnir gáfu sér samt tíma til að spjalla við nemendur og kennara og var þetta hin skemmtilegasta ferð.  Á skólaslitunum verður sýning á afrakstri úr vorverkefni nemenda í 1.-4. bekk.  Þema verkefnisins að þessu sinni var „Hafið“. 

Vorferðalög
1.-4. bekkur fór til Skagastrandar. Byrjað var á að skoða fiskmarkaðinn Örva.  Þar sáu nemendurnir ungu að minnsta kosti sjöfisktegundir.  Farið var á bryggjuna og skipin skoðuð, bæði sjósett og þau sem voru á landi.  Eftir skipaskoðunina fór hópurinn í fjöruferð.  Í skíðaskálanum í Spákonufelli var slegið upp mikilli pylsuveislu og eftir hana hélt hópurinn heim að Húnavöllum og endaði ferðalagið í sundlauginni.  Nemendur í 5.-7. bekk héldu sem leið lá til Dalvíkur.  Fyrst heimsóttu krakkarnir Byggðasafnið á Hvoli þar sem margt áhugavert bar fyrir augu.  Eftir að hafa snætt nestið sitt var haldið í siglingu á vélbátnum Snorra.  Í ferðinni var rennt fyrir fisk í nístingskulda og því var gott að komast í sundlaugina á Dalvík og ylja sér.  Í Bárubúð fóru nemendur í pizzahlaðborð og að því loknu var haldið heim.  Áttundu og níundu bekkingar byrjuðu daginn á því að skoða gömlu torfkirkjuna á Víðimýri.  Síðan var farið í „river-rafting“ á Jökulsá vestari og klettasig í Hegranesi.  Á Sauðárkróki var farið í sund og pizzahlaðborð.   Nemendur í tíunda bekk lögðu af stað í hina árlegu útskriftarferð aðfaranótt 11. maí. Kaupmannahöfn, höfuðborg Danaveldis var heimsótt að venju og dvöldu nemendur og fararstjórar þar við glaum og gleði í eina viku.   Þessar ferðir voru afar vel heppnaðar og öllum til mikillar ánægju.   

Lokadagur og skólaslit
Lokadagur Húnavallaskóla vorið 2007 var þriðjudaginn 29. maí.  Sá dagur var að venju á léttum nótum með leikjum og glensi.  Skólaslit voru fimmtudaginn 31. maí.

Upphaf skóla haustið 2007
Kennarar við Húnavallaskóla mættu til vinnu að loknu sumarleyfi um miðjan ágúst.  Starfið hófst með tveimur námskeiðum.  Það fyrra var haldið í Grunnskóla Húnaþings vestra þann 14. ágúst og fjallaði um stærðfræði á miðstigi.  Leiðbeinandi var Jónína Marteinsdóttir.  Það síðara fór fram í Húnavallaskóla daginn eftir og var fyrir alla kennara í sýslunum báðum.  Námskeiðið var um vandaðan upplestur og framsögn og voru leiðbeinendur þeir Baldur Sigurðsson og Þórður Helgason frá KHÍ.  Námskeiðin heppnuðust vel og voru bæði leiðbeinendur og kennarar ánægðirað þeim loknum.  Formlega hófst skólastarfið með skólasetningu mánudaginn 27. ágúst. Í vetur stunda 76 nemendur nám í Húnavallaskóla.  Fyrstu námsönninni lauk föstudaginn 2. nóvember og ný hófst með foreldraviðtölum og einkunnaafhendingu þriðjudaginn 6. nóvember.

Dagur stærfræðinnar og dagur íslenskrar tungu
Dagur stærðfræðinnar var að venju  haldinn hátíðlegur fimmtudaginn 27. október. Þennan dag glímdu nemendur við margvísleg stærðfræðiverkefni við óhefðbundnar aðstæður, bæði úti og inni.  Eftir hádegi var Norræna skólahlaupið þreytt og létu nemendur og kennarar leiðinlegt veður ekki hafa nein áhrif á sig.  Á tvöhundruð ára  fæðingarafmæli Jónasar Hallgrímssonar þann 16. nóvember var Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur.  Þennan dag hófst formlega Stóra-upplestrarkeppnin, sem í Húnavatnssýslum er tileinkuð Grími heitnum Gíslasyni undir heitinu Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi.  Það eru nemendur í 7. bekk sem taka þátt í keppninni fyrir hönd Húnavallaskóla.

Samræmd próf í 4. og 7. bekk
Samræmd könnunarpróf í 4. og 7. bekk voru haldin 18. og 19. október.    Í þessum bekkjum er prófað í stærðfræði og íslensku.  Markmið þessara prófa er að foreldrar og kennarar sjái stöðu nemenda í samanburði við öll börn á sama aldri á landsvísu.

Ýmislegt frá haustönn 2007
Allir bekkir skólans hafa haldið bekkjarkvöld á haustönninni.  Nemendur skemmtu sér  vel á þessum kvöldum og margir sýna mikla og góða leikhæfileika.  Auk bekkjarkvöldanna hafa verið haldin tvö diskótek.  Nemendur hafa oft sérstök „þemu“ á diskótekum.  „Náttfötin hennar mömmu“ voru m.a. eitt þemað.  Þá var mætt í náttfötum og keppni fór fram um titlana herra og frú náttföt, í yngri og eldri flokki.  Í yngri flokki hrepptu titla þau Sandra Haraldsdóttir í 8. bekk og Atli Einarsson í 6. bekk.  Í eldri flokki sigruðu Sigurdís Sandra Tryggvadóttir í 9. bekk og Axel Gauti Guðmundsson í 10. bekk.  Á vegum foreldrafélagsins var farið í  leikhúsferð.  Farið var á Sauðárkrók og horft á leikritið Alína  sem leikfélagið á Sauðárkróki setti á fjalirnar.  Þátttaka var að venju mjög góð og skemmtu allir sér konunglega.  Nemendur 9. bekkjar dvöldu að Laugum í Sælingsdal dagana 29. október til 4. nóvember.  UMFÍ rekur þar ungmenna- og tómstundabúðir.  Húnvellingar kynntust þar 70 jafnöldrum sínum úr Lindaskóla í Kópavogi.  Þegar heim var komið þá voru krakkarnir ánægðir með ferðina og töldu hana bæði skemmtilega og lærdómsríka. Enn fengu nemendur góða gesti á vegum verkefnisins Tónlist fyrir alla.  Nú var það Djasskvartett Reykjavíkur sem kom.  Kvartettinn skipa þeir Sigurður Flosason sem lék á saxófón, Eyþór Gunnarsson, píanó, Tómas R. Einarsson, kontrabassa og Gunnlaugur Briem, trommur.  Tónleikana nefndu þeir „Ég hef taktinn“ og léku þeir fjölbreytta efnisskrá, djass-„standard“ eftir erlenda höfunda ásamt íslenskum og erlendum alþýðulögum.

Sparkvöllurinn
Nú er endanlega lokið myndarlegri framkvæmd Húnavatnshrepps við upphitaðan sparkvöll sem staðsettur er við Húnavallaskóla.  Völlurinn var formlega vígður 12. desember s.l.  Fyrir hönd KSÍ mætti Eyjólfur Sverrisson á staðinn.  Anný Mjöll Sigurðardóttir og Halldór Ingi Sigurðsson nemendur í 10. bekk klipptu á vígsluborðann.  Að því loknu var fyrsti formlegi leikurinn spilaður en þar öttu kappi nemendur skólans.  Sveitarstjórninni okkar er hér með færðar bestu þakkir fyrir þá framsýni að ráðast í þetta verk.

Árshátíð
Árshátíð Húnavallaskóla var haldin  30. nóvember s.l.  Eins og áður var hátíðin metnaðarfull og fjölsótt.  Þar voru flutt tónlistaratriði undir stjórn Skarphéðins Einarssonar og Benedikts Blöndal, Jóhanna Stella Jóhannsdóttir leikstýrði 8. og 9. bekk í leikritinu Lína langsokkur.  María Heba Þorkelsdóttir, leikkona var ráðin til að leikstýra nemendum 10. bekkjar í söngleiknum „Footloose“ í leikgerð leikkonunnar.  Að venju stóðu nemendur sig með mikilli prýði og heilluðu áhorfendur jafnt unga sem aldna.

   Að loknum skemmtiatriðum voru foreldrar og forráðamenn tíundu bekkinga með glæsilega kaffisölu. 

   Allur ágóði af skemmtuninni rennur í ferðasjóð tíundu bekkinga.  Athygli er vakin á því að nemendur munu sýna „Footloose“ í Félagsheimilinu á Blönduósi fimmtudaginn 27. desember, klukkan 20.00.  Þetta er fjórða árið í röð sem söngleikur sem settur er upp á árshátíð Húnavallaskóla er sýndur á Blönduósi á milli jóla og nýárs.  Full ástæða er til að hvetja alla þá sem misstu af sýningunni á árshátíðinni að mæta og láta ekki frábæra skemmtun fram hjá sér fara.

Litlu-jólin og jólafrí
Enn á ný var aðventan hafin.  Fimmtudaginn 20. desember voru litlu-jólin og að þeirri hátíð lokinni hófst jólafríið.

                                                                                            Þorkell Ingimarsson, skólastjóri