Annáll ársins 2006

                                              Frá Húnavallaskóla

Íþróttadagur í janúar
Skólastarf hófst á nýju ári miðvikudaginn 4. janúar með starfsdegi kennara.  Kennsla hófst fimmtudaginn 5. janúar.  Fimmtudaginn 9. febrúar heimsóttu nemendur í Húnaþingi vestra Húnvellinga.  Tilefnið var árleg íþróttakeppni nemenda í 8., 9. og 10. bekk.  Keppt var í hinum ýmsu íþróttagreinum og skemmtu nemendur sér hið besta.

Öskudagurinn
Öskudagsfjörið var á sínum stað á öskudaginn og var kötturinn sleginn úr tunnunni.  Tunnukóngur skólaársins var Brynjar Geir Ægisson í 6. bekk og var það annað árið í röð sem hann varð þessa heiðurs aðnjótandi.  Að loknum kaffiveitingum var diskótek fyrir nemendur í 1.-6. bekk til klukkan 16.00.  Eldri nemendur dönsuðu aftur á móti til klukkan 22.00. 

Bingó
Föstudaginn 16. mars var bingóið.  Eins og venja er þá var það 9. bekkur sem sá um framkvæmdina.  Nemendur fóru meðal annars til Reykjavíkur og Akureyrar til að safna vinningum og var afraksturinn feikilega góður.  Foreldrar voru með kaffiveitingar og skemmtuninni sem var fjölsótt lauk með diskóteki.  Allur ágóði af hátíðinni rann í ferðasjóð 9. bekkjar.  Í vikunni á eftir bingóinu fóru nemendur í 9. og 10. bekk í langþráða skíðaferð til Akureyrar.  Skíðað var í Hlíðarfjalli í ágætu færi.  Nemendur voru flestir fljótir að ná góðri færni á skíðum eftir leiðsögn skíðakennara og nutu sín í brekkunum

Myndlistarvika
Vikuna 20.-24. mars kom Sigurdís Harpa Arnarsdóttir myndlistakona og hélt námskeið fyrir alla nemendur skólans.  Mikið af  fallegum og listrænum verkum skapaðist á þessu námskeiði og prýða þau nú veggi skólans.

Danskennsla
Eins og undanfarin ár kom Hinrik Norðfjörð Valsson danskennari og kenndi dans vikuna 3.-7. apríl.  Þátttaka var góð að venju og nánast hver einasti nemandi tók þátt.  Kennslunni lauk með danssýningu sem tókst mjög vel.

Framsagnarkeppnin
Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi sem almennt er kölluð Stóra-upplestrarkeppnin í 7. bekk var haldin í félagsheimilinu á Skagaströnd fimmtudaginn 23. mars.  Þær Harpa Birgisdóttir, Írena Ösp Sigurðardóttir og Sigurdís Sandra Tryggvadóttir höfðu áður orðið hlutskarpastar í forkeppni innan skólans og tóku því þátt í lokakeppninni.  Allar stóðu þær sig mjög vel og hafnaði Harpa í fyrsta sæti og Sigurdís Sandra í öðru.  Albert Jóhannsson úr Grunnskóla Húnaþings vestra varð í þriðja sæti.  Keppni skólanna í Húnavatnssýslum er tileinkuð Grími Gíslasyni frá Saurbæ í Vatnsdal.

Tónlist fyrir alla
Tónlistarmennirnir Jón Rafnsson, Ásgeir Óskarsson og Pálmi Sigurhjartarson komu á vegum skólatónleikanna á Íslandi „Tónlist fyrir alla“.  Dagskráin var tvískipt, þ.e. fyrir yngri- og eldri nemendur.  Krakkarnir tóku vel undir með tónlistarmönnunum og höfðu gaman af. 

Íþróttamót 
Skólarnir í Austur-Húnavatnssýslu, Grunnskólinn á Blönduósi, Húnavallaskóli og Höfðaskóli á Skagaströnd. héldu hið árlega íþróttamót fyrir nemendur í 7.- 10. bekk föstudaginn 7. apríl.  Keppnin var spennandi og skemmtileg og réðust úrslitin ekki fyrr en í limbókeppni sem haldin var á diskóteki að loknu íþróttamótinu.  Þar fékk Grunnskólinn á Blönduósi 4 stig fyrir 1. og 3. sæti, Höfðaskóli 2 stig fyrir annað sæti en Húnavallaskóli var án stiga.  Grunnskólinn á Blönduósi fór því með sigur af hólmi með samtals 38 stig, Húnavallaskóli varð í öðru sæti með 35 stig og Höfðaskóli í því þriðja með 19 stig.  Nemendur héldu síðan heim í páskafríið að loknu diskóteki, þreyttir en ánægðir eftir skemmtilegan dag.  Nemendur 10.   bekkjar á Húnavöllum vildu þó fæstir fara heim án þess að komast í stofuna sína til að nálgast námsbækurnar, vitandi það að samræmdu prófin voru handan við hornið.   

Vinningshafi í samkeppni Mjólkursamsölunnar í Reykjavík
Í vetur tóku nemendur í 5.,6. og 7. bekk Húnavallaskóla þátt í samkeppni sem MS hélt um texta á mjólkurfernur.  Fyrirsögn textans átti að vera „Hvað er að vera ég“?.  Sigurdís Sandra Tryggvadóttir, Ártúnum nemandi í 7. bekk, samdi ljóð sem var valið til birtingar á fernurnar.  Öllum nemendum 5., 6. og 7. bekkja landsins var boðið að vera með.  Einnig var nemendum framhaldsskóla boðin þátttaka..  Úr öllum innsendum verkefnum voru síðan valdir 64 textar til birtingar á fernur.  Verðlaun og viðurkenningar voru veitt í húsnæði MS í Reykjavík og afhenti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálráðherra þau.  Peningaverðlaun voru fyrir þrjú efstu sætin en aðrir hlutu viðurkenningarskjöl ásamt pennasetti en þar á meðal var Sigurdís Sandra.  Einnig fékk hún fríar ferðir fram og til baka.
    Við erum stolt af Sigurdísi Söndru og óskum henni innilega til hamingju.

Ýmislegt
Sóknarpresturinn okkar séra Sveinbjörn R. Einarsson bauð nemendum í 1.-4. bekk og börnum á Ömmubæ á leiksýningu í kirkjunni.  Þar sáu börnin leikritið „Við Guð erum vinir“ sem byggir á samnefndri sögu eftir Kari Vinje.
    Á skólaárinu barst skólanum höfðingleg gjöf.  Á fundi hjá starfsmannafélagi samvinnustarfsmanna þar sem félaginu var endanlega slitið, þann 19. 12. 2005 var tekin sú ákvörðun að færa Húnavallaskóla peningagjöf til tækjakaupa að upphæð 120.000.  Skólinn þakkar gefendum hlýjan hug.
    Í vetur hefur skólinn haldið áfram þátttöku sinni í Olweusarverkefninu gegn einelti.  Síðari könnun verkefnisins var lögð fyrir nemendur í mars.  Niðurstöður hafa ekki enn verið kynntar innan skólans.  Einnig hefur skólinn tekið þátt í þróunarvinnu í samvinnu við hina grunnskólana í Húnavatnssýslum um gerð matslista Gerd Strand.  Matslistinn er af norskri fyrirmynd og verður þróaður til notkunar fyrir sjö ára nemendur.  Þessi vinna hefur gengið vel og er fyrirhugað að halda henni áfram.

Vorverkefni
Flóran, fuglalífið og landið sjálft var aðal viðfangsefnið í 1.-4. bekk.  Þema verkefnisins var „Ísland“.  Nemendur unnu meðal annars listaverk úr þæfðri ull og sungu ættjarðarsöngva.  Á skólaslitunum verður sýning á afrakstri ungu nemendanna. 
    Vorverkefni hjá nemendum í 5.-9. bekk hófst með afhendingu verkefnis í skólanum og síðan var reiðhöllin á Blönduósi heimsótt.

Verkefnið er tileinkað hestum og hestamennsku.  Í Reiðhöllinni sýndi Tryggvi Björnsson tamningamaður okkur meðal annars 1. verðlauna graðhestinn Gamm frá Steinnesi í reið.  Munurinn á hinum ýmsu gangtegundum íslenska hestsins var útskýrður fyrir nemendum á meðan á sýningu stóð.  Eftir sýninguna var farið í heimsókn í hesthúsið til Tryggva.

Vorferðalög fimmtudaginn 11. maí
1.-4. bekkur  heimsótti Reyki í Hrútafirði.  Þar skoðaði hópurinn Byggðasafnið og fór í fjöruferð.  Að venju endaði ferð þeirra með sundi á Húnavöllum.  5. 6. og 7. bekkur fór út í Hrísey.  Síðan var farið til Akureyrar í sund og á veitingahús þar sem allir urðu saddir af pitsum.  Nemendur 8. og 9. bekkjar könnuðu Snæfellsnesið.  Farið var meðal annars í siglingu um Suðureyjar Breiðafjarðar, skoðuð hákarlaverkunin í Bjarnarhöfn og Mjólkurbúið í Búðardal.  Gist var eina nótt að Hofi í Hofgörðum.  Þennan sama dag fóru nemendur 10. bekkjar í framhaldsskólaheimsóknir til Akureyrar.  Föstudaginn 12. maí héldu síðan útskriftarnemendur í sína venjubundnu för til Danmerkur og skemmtu sér í Kaupmannahöfn í eina viku.  Allar þessar ferðir voru vel heppnaðar. 

Lokadagur og skólaslit
Lokadagur skóla var mánudaginn 29. maí og skólaslit miðvikudaginn 31. maí.  Árangur nemenda á samræmdum prófum í 10. bekk var góður.  Þessir hlutu sérstakar viðurkenningar í formi bókaverðlauna frá skólanum við útskrift:  Finna Birna Finnsdóttir, Köldukinn fyrir góðan árangur í ensku, Gréta María Björnsdóttir, Húnsstöðum fyrir dugnað við félagsstörf, Helga Dögg Jónsdóttir, Hæli fyrir góðan árangur í samfélagsfræði, Höskuldur Sveinn Björnsson, Mosfelli fyrir góðan árangur í dönsku, Rúnar Aðalbjörn Pétursson, Hólabæ fyrir góðan árangur í íslensku og stærðfræði og Þorsteinn Margeirsson fyrir góðan árangur í náttúrufræði.  Að auki fékk Rúnar Aðalbjörn Pétursson bókaverðlaun frá Menntamálaráðuneyti og Hinu íslenska bókmenntfélagi.  Þessi verðlaun eru veitt þeim nemendum sem skara fram úr með góðum námsárangri um land allt.
    Enginn starfsmaður skólans lét af störfum en Sigurður H. Pétursson, kennari fór í ársleyfi að loknu skólaárinu.

Upphaf skóla haustið 2006
Kennarar við Húnavallaskóla mættu til vinnu að loknu sumarleyfi þriðjudaginn 15. ágúst.  Starfið hófst með tveggja daga námskeiði sem haldið var í Húnavallaskóla.  Leiðbeinendur voru þær Aldís Yngvadóttir, ritstjóri hjá Námsgagnastofnun og  Erla Kristjánsdóttir, lektor við Kennaraháskóla Íslands.  Kenndu þær notkun námsefnisins Lions quest „Að ná tökum á tilverunni“.  Námskeiðið þótti takast vel og voru kennarar mjög ánægðir að því loknu.
    Formlegt skólastarf hófst með skólasetningu föstudaginn 25. ágúst. Áttatíu og fjórir nemendur hófu nám í Húnavallaskóla haustið 2006.  Fyrstu námsönninni lauk föstudaginn 3. nóvember og ný hófst með foreldraviðtölum og einkunnaafhendingu þriðjudaginn 7. nóvember.  Þær breytingar voru á starfsliði skólans að Magdalena Margrét Einarsdóttir var ráðinn sem kennari og Sveinfríður Unnur Halldórsdóttir sem skólaliði.

Dagur stærðfræðinnar og dagur íslenskrar tungu
Dagur stærðfræðinnar var haldinn hátíðlegur fimmtudaginn 28. október.  Þennan dag var hefðbundið skólastarf brotið upp og stærðfræðiverkefni leyst innan sem utan dyra.  Eftir hádegi var síðan Norræna skólahlaupið þreytt.  Dagur íslenskrar tungu var að venju haldinn hátíðlegur með margvíslegum upplestri og söng.  Á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar 16. nóvember hófst formlega Stóra-upplestrarkeppnin sem í Húnavatnssýslum er tileinkuð Grími Gíslasyni á Blönduósi undir heitinu Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi.  Það eru nemendur í 7. bekk sem taka þátt í keppninni fyrir hönd skólans.

Samræmd próf í 4. og 7. bekk
Samræmd könnunarpróf í 4. og 7. bekk voru haldin 19. og 20. október.    Í þessum bekkjum er prófað í stærðfræði og íslensku.  Árangur nemenda í Húnavallaskóla var góður.

Ýmislegt frá haustönn 2006
Bekkjakvöld  hafa verið haldin í hverjum bekk á haustönninni, nema á Lambastöðum.  Lambastaðafjöri varð að fresta vegna veðurs en bætt verður úr á nýju ári.  Nemendur njóta sín vel á þessum kvöldum og sýna mikla og góða leikræna hæfileika.  Auk bekkjakvöldanna hafa verið haldin þrjú  diskótek.  Foreldrafélagið stóð fyrir leikhúsferð í haust.  Farið var á Sauðárkrók og horft á Gosa sem leikfélagið á Sauðárkróki setti á fjalirnar.  Þátttaka var afar góð og voru allir glaðir og ánægðir þegar heim var komið.  Mánudaginn 2. október fengum við heimsókn á vegum verkefnisins Tónlist fyrir alla.  Í ár var yfirskrift tónleikanna „tvær flautur og gítar“.  Það voru listamennirnir Guðrún S. Birgisdóttir og Martial Nardeau sem spiluðu á og sýndu okkur mismunandi flaututegundir.  Kristinn H. Árnason sýndi okkur kassa- og rafmagnsgítar.  Þau spiluðu nokkur lög við mjög góðar undirtektir og spjölluðu þess á milli um heiti og notagildi hvers hljóðfæris.  Að lokum spiluðu þau undir þegar allir nemendur skólans sungu saman „Ryksugulagið“.  Í desember barst skólanum vegleg gjöf frá KB banka.  Þetta voru 12 fótboltar og eiga þeir örugglega eftir að nýtast vel.  Skólinn þakkar Auðuni, útibússtjóra og hans fólki kærlega þessa góðu gjöf.  Gaman er að geta þess að í desember 2006 gengu forsvarsmenn Húnavatnshrepps frá samningum við Knattspyrnusamband Íslands um byggingu sparkvallar sem mun rísa við Húnavallaskóla.  Völlurinn verður tilbúinn fyrir skólabyrjun næsta skólaár og mun tvímælalaust efla mjög íþróttalíf í skólanum.

Árshátíð Húnavallaskóla
Árshátíð Húnavallaskóla var haldin  föstudaginn 24. nóvember.  Eins og áður var hátíðin metnaðarfull og fjölsótt.  Þar voru flutt tónlistaratriði, nemendur í áttunda og níunda bekk sýndu leikritið „Latasveit“ undir leikstjórn Jóhönnu Stellu Jóhannsdóttur, umsjónarkennara.  Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir, leikkona var ráðin sérstaklega til að  leikstýra nemendum tíunda bekkjar í söngleiknum „Litla hryllingsbúðin“.  Að venju stóðu nemendur sig mjög vel og heilluðu áhorfendur, jafnt unga sem gamla.
    Að loknum skemmtiatriðum voru foreldrar og forráðamenn tíundu bekkinga með glæsilega kaffisölu. Á meðan hinir eldri nutu veitinganna, dönsuðu og skemmtu ungmennin sér  til klukkan eitt. 
    Allur ágóði af skemmtuninni rann í ferðasjóð tíundu bekkinga.  Fimmtudaginn 28. desember var síðan „Litla hryllingsbúðin“ sýnd fyrir fullu húsi í Félagsheimilinu á Blönduósi.  Þetta er þriðja árið í röð sem nemendur 10. bekkjar í Húnavallaskóla troða upp með söngleik í Félagsheimilinu á þessum tíma árs.  Í desember 2004 var það „Fame“ og í fyrra „Komin til að sjá og sigra“ sem var byggður á Stuðmannamyndinni „Með allt á hreinu“.
    Allar þessar sýningar hafa tekist með miklum ágætum og verið nemendum og skóla til mikils sóma.

Litlu-jólin og jólafrí
Þriðjudaginn 19. desember voru litlu-jólin þar sem yngri nemendur sýndu leikþætti, dansað var kringum jólatréð og jólasveinar komu í heimsókn.  Hátíðinni lauk með hefðbundnu diskóteki fyrir nemendur í 6.-10. bekk sem stóð til, klukkan 21.00. og þá hófst jólafríið.

                                                                            Þorkell  Ingimarsson, skólastjóri