Annáll ársins 2005

Frá Húnavallaskóla

Íþróttadagur í janúar
Skólahald árið 2005 hófst með starfsdegi kennara þriðjudaginn 4. janúar.  Nemendur mættu í skólann miðvikudaginn 5. janúar.  Fimmtudaginn 27. janúar var árlegt íþróttamót samstarfsskólanna við verkefnið „Sérstaða sveitaskólans“.  Að þessu sinni fór mótið fram á Laugarbakka og var fjöldi nemenda í 8.-10. bekk skólanna þar saman kominn.  Nemendur Húnavallaskóla fengu veglegan farandbikar til varðveislu næsta árið fyrir frækilegan árangur og kurteisi í framkomu.

Öskudagsfjör
Öskudagsfjörið var á sínum stað á öskudaginn og var kötturinn sleginn úr tunnunni að venju.  Tunnukóngur að þessu sinni var Brynjar Geir Ægisson í 5. bekk.  Margir foreldrar heimsóttu skólann þennan dag með forskólabörn og er það ánægjulegt, því þessi hátíð er ekki síst fyrir yngstu kynslóðina.

Bingó
Föstudaginn 9. mars hélt 9. bekkur hið árlega bingó.  Nemendur fóru meðal annars til Reykjavíkur, Akureyrar og Sauðárkróks til að safna vinningum og var afraksturinn afar góður.  Eftir bingóið voru foreldrar með glæsilegar kaffiveitingar að venju.  Skemmtuninni lauk með diskóteki.  Allur ágóði af bingóinu rann í ferðasjóð 9. bekkjar.

Danskennsla
Mánudaginn 14. mars kom Hinrik Norðfjörð Valsson danskennari.  Hann dvaldi hjá okkur í vikutíma og þjálfaði nemendur í danslist.  Þátttaka í dansinum var góð að venju.  Danskennslunni lauk með sýningu þar sem foreldrar og aðstandendur fjölmenntu og fylgdust með hve nemendur höfðu öðlast mikla fimi.

Af foreldrastarfi
Foreldrafélagið bauð upp á leikhúsferð til Sauðárkróks í september.  Fjölmenni fór og sá Ávaxtakörfuna í uppsetningu Leikfélags Sauðárkróks.  Dagný Úlfarsdóttir kennari á Skagaströnd kom á vegum foreldrafélagsins og hélt fyrirlestur um aukið öryggi barna á netinu.  Hún kynnti SAFT-verkefnið sem er evrópskt rannsóknar- og fræðsluverkefni um örugga netnotkun barna.  Markmið verkefnisins er að auka vitund barna og foreldra á möguleikum og hættum netsins.  Bekkjarfulltrúar foreldra í 3. bekk voru með föndur í bekknum skömmu fyrir páska.  Nemendur voru afar glaðir með þessa framtakssemi og nutu samverunnar mjög.  Bekkjarfulltrúar foreldra í 6. bekk komu á samstarfi við Höfðaskóla á Skagaströnd og komu 6. bekkingar á Skagaströnd í heimsókn á Húnavelli.  Sú heimsókn var svo endurgoldin þegar 6. bekkur á Húnavöllum heimsótti Skagstrendinga.  Æskilegt væri að starf sem þetta kæmist á í hverjum bekk og verði að hefð.  Kvenfélag Sveinsstaðahrepps færði Húnavallaskóla tvenna jólasveinabúninga að gjöf.  Gjöfin kemur sér afar vel og er kvenfélagskonum þakkað fyrir hlýhug til skólans.

Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi
Nemendur í 7. bekk tóku þátt í hinni árlegu forkeppni innan skólans vegna framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnssýslum.  Þrír nemendur úr hópnum voru valdir til að taka þátt í lokakeppninni sem haldin var á Laugarbakka.  Þau sem urðu fyrir valinu voru Anný Mjöll Sigurðardóttir, Axel Gauti Guðmundsson og Jóhann Helgi Ingþórsson.  Þau þóttu standa sig prýðisvel þó svo að þau hlytu ekki verðlaunasæti.  Sigurvegarinn í ár kom frá Skagaströnd.

Íþróttadagur í mars
Árlegt íþróttamót nemenda í 7.-10. bekk í Austur-Húnavatnssýslu var haldið á Blönduósi föstudaginn 18. mars sem var síðasti skóladagur fyrir páskafrí.  Mótinu lauk með diskóteki og skemmtu allir sér vel.

Stærðfræðikeppni Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra
Jenný Drífa Kristjánsdóttir og Rúnar Aðalbjörn Pétursson áunnu sér rétt til að taka þátt í árlegri stærðfræðikeppni, sumardaginn fyrsta, sem haldin er á vegum Fjölbrautaskólans á Sauðárkróki fyrir nemendur í 9. bekk.  Aðeins þeir 16 nemendur allra grunnskólanna á Norðurlandi vestra sem ná bestum árangri í forkeppni ávinna sér rétt til þátttöku í lokakeppninni.  Án efa hafa þau Jenný Drífa og Rúnar staðið sig vel þó svo að þau væru ekki á meðal þriggja efstu í lokakeppninni.

 
Ýmislegt frá vorönn 2005
Á fundi skólanefndar þann 29. nóvember og síðan á fundi stjórnar Byggðasamlags um Húnavallaskóla þann 8. desember, var samþykkt tillaga frá skólastjóra um að nemendum 10. bekkjar væri gefinn kostur á að mæta í skólann sex laugardaga eftir áramót til að reyna að draga úr áhrifum verkfalls kennara frá haustinu 2004  Þessir dagar voru vel nýttir af nemendum og skiluðu tilætluðum árangri að mati nemenda og kennara.  Stjórn Byggðasamlagsins var hlynnt því að nemendum 10. bekkjar á næsta skólaári væri boðið slíkt hið sama.

Sóknarpresturinn okkar, séra Sveinbjörn Einarsson, bauð yngri nemendum skólans og börnum á Ömmubæ á leiksýningu í kirkjunni mánudaginn 14. mars.  Þar sáu börnin „Kamillu og þjófinn“ og skemmtu allir sér mjög vel.  Séra Sveinbjörn hefur boðið upp á brúðuleikhússýningar undanfarin ár og kann skólinn honum bestu þakkir fyrir. 

Daði Sverrisson píanóleikari heimsótti skólann 5. apríl.  Hann kom á vegum Skólatónleika á Íslandi – Tónlist fyrir alla.  Dagskráin var tvískipt:  Fyrir yngstu börnin flutti hann hina þekktu sögu „Fíllinn Babar“ eftir Jean de Brunhoft í tali og tónum, en franska tónskáldið Francis Poulenc hefur samið við hana fallega píanótónlist.  Fyrir eldri nemendur lék hann tónlist eftir Edward Grieg o.fl. undir sýningu á myndinni „Ævintýramaðurinn“ eftir meistara Chaplin.  Allir nemendur fylgdust með báðum sýningunum og höfðu ánægju af. 

Dagana 31. mars til 20. apríl dvaldi í skólanum skoskur kennaranemi sem heitir Melissa Mighton.  Hluti af námi hennar felst í því að koma með tillögur að framtíðarskóla í sínu heimalandi og sagði hún að eftir heimsóknina til okkar yrði sér það verkefni leikur einn.  Nemendur og starfsfólk höfðu mikla ánægju af heimsókn Melissu og við óskum henni alls hins besta í framtíðinni.

Þróunarstarf
Húnavallaskóli, ásamt skólunum í Húnavatnssýslum, hefur haldið áfram í þróunarverkefninu „Læsi til framtíðar“ frá síðasta skólaári.  Í vetur hefur verkefnið „Byrjendalæsi“ verið tekið fyrir í 1.-2. bekk undir leiðsögn Rósu Eggertsdóttur og í 3.-4. bekk undir leiðsögn Guðmundar Engilbertssonar en bæði koma þau frá Háskólanum á Akureyri.  Markmið verkefnisins er að bæta lestrarkennslu.  Einnig hefur Húnavallaskóli í vetur tekið þátt í Olweusarverkefninu gegn einelti.  Verkefnisstjóri fyrir skólana í Húnavatnssýslum er Guðbjörg Inga Guðmundsdóttir, kennari á Laugarbakka.  Starfsfólk skólans hefur haldið fundi hálfsmánaðarlega til að fræðast um og tileinka sér vinnureglur Olweusar, auk þess sem lykilmenn og oddviti skólans hafa sótt fundi með verkefnisstjóra.  Eineltiskönnun var lögð fyrir nemendur skólans í febrúar og unnið úr gögnum úti í Noregi.  Guðbjörg Inga kynnti niðurstöður fyrir starfsmönnum, fulltrúa foreldra og nemenda í apríl.  Niðurstöðurnar voru þær að í Húnavallaskóla mældist ekkert einelti.  Þrátt fyrir þessa ánægjulegu niðurstöðu má ekki sofna á verðinum og starfið mun halda áfram næsta vetur.


Vorverkefni og vorferðalög
Vorverkefni 1.-4. bekkjar var að þessu sinni nefnt „Endurvinnsla og endurnýting“ og er tengt ýmiss konar endurvinnslu og endurnýtingu hluta sem falla til á hverjum degi.  Vorverkefni 5.-9. bekkjar hét „Umhverfið og ég“ og tengdist hinum ýmsu umhverfisþáttum.
Farið var í vorferðalög 12. maí.  Fyrsti til fjórði bekkur fór í Vatnsdalinn.  Þar var gengið á Hnjúkinn, farið í leiki, borðað nesti og fleira.  Fimmti til sjöundi bekkur fór í Skagafjörðinn.  Fyrst var farið í siglingu á Blöndu, síðan var Hólastaður skoðaður og að lokum var farið í sund í Varmahlíð.  Áttundi og níundi bekkur fóru einnig í Skagafjörðinn.  Skoðuð var kirkjan á Víðimýri, sigið í kletta í Hegranesi og farið í siglingu á Jökulsá vestari.  Tíundi bekkur hélt til Danmerkur 20. maí og dvaldi þar í eina viku.

Lokadagur og skólaslit
Lokadagur skóla var mánudaginn 30. maí og skólaslit þriðjudaginn 31. maí.  Árangur nemenda á samræmdum prófum var mjög góður og talsvert yfir landsmeðaltali.  Eftirtaldir útskriftarnemendur voru heiðraðir á skólaslitum fyrir góða ástundun og árangur í námi.  Anna Þóra Sigurðardóttir, Syðri-Grund fyrir góðan árangur í dönsku og ensku, Arndís Sigurðardóttir, Brúsastöðum fyrir góðan árangur í íslensku, Björn Benedikt Sigurðsson, Guðlaugsstöðum fyrir góðan árangur í samfélagsfræði og stærðfræði, Einar Bjarni Björnsson, Mosfelli fyrir góðan árangur almennt og dugnað við félagsstörf, Hlynur Árni Þorleifsson, Sólheimum fyrir góðan árangur í náttúrufræði, Lillý Rebekka Steingrímsdóttir, Litlu-Giljá fyrir góðan árangur almennt og í tónlistarnámi, Pálmi Gunnarsson, Akri fyrir góðan árangur almennt og dugnað og áhuga í íþróttum og Petrea Sigmundsdóttir, Sólheimum fyrir áhuga, ástundun og góða framför í grunnskóla.  Þrír starfsmenn hættu störfum við skólann.  Þetta voru þau Dóra Margrét Sigurðardóttir, kennari, Hjördís Jónsdóttir, stundakennari og Sigmundur Birgir Skúlason, íþróttakennari.

Upphaf skóla haustið 2005
Kennarar við Húnavallaskóla mættu til vinnu að loknu sumarleyfi mánudaginn 15. ágúst.  Þann dag var námskeið um leiklist í skólastarfi haldið á Skagaströnd.  Leiðbeinendur á námskeiðinu voru þau Anna Flosadóttir, kennari og Ólafur Guðmundsson, leikari og voru kennarar almennt mjög ánægðir.
Formlegt skólastarf hófst með skólasetningu fimmtudaginn 25. ágúst.  Níutíu nemendur hófu nám í Húnavallaskóla haustið 2005.  Þrír nýir starfsmenn hófu störf við skólann.  Þetta voru þau Áslaug Inga Finnsdóttir, kennari, Valgerður Guðrún Bjarkadóttir, kennari, og Djurica Milan, íþróttakennari sem réðst aftur til skólans eftir tveggja ára fjarveru. 

Dagur stærðfræðinnar og dagur íslenskrar tungu
Dag stærðfræðinnar bar nú í ár upp á þriðjudaginn 27. september.  Þennan dag átti að nýta til að brjóta upp hefðbundið skólastarf og tileinka daginn stærðfræðivinnu í margvíslegum myndum, bæði innan- og utan dyra.  Vegna veðurs þurfti að fresta þessari vinnu til 4. október.  Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur að vanda.  Í tilefni dagsins voru nemendur með upplestur, söng og leikrit.

Samræmd próf í 4. og 7. bekk
Samræmd próf í þessum bekkjum voru haldin 20. og 21. október.  Í þessum bekkjum er prófað í stærðfræði og íslensku.  Árangur nemenda í Húnavallaskóla var góður og vel yfir landsmeðaltali. 

Félagslíf á haustönn
Íþróttaæfingar utan skóla hafa verið á hverjum mánudegi fyrir 6.-10. bekk.  Bekkjarkvöld hafa verið haldin í hverjum bekk og „Lambastaðafjör“ fyrir yngstu nemendurna.  Auk þess voru haldin þrjú diskótek.  Foreldrafélagið stóð fyrir leikhúsferð á haustönninni.  Nú var farið á Blönduós og horft á Bangsímon sem Leikfélag Blönduóss setti á fjalirnar.  Þátttaka var afar góð og allt heppnaðist vel.

Ýmislegt frá haustönn 2005
Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup yfir Íslandi veitti okkur þann heiður mánudaginn 3. október að heimsækja skólann, ásamt eiginkonu sinni, sóknarprestinum okkar og prófastinum í Húnaþingi.  Eftir að biskup hafði notið leiðsagnar skólastjóra um skólann og heimsótt nemendur í skólastofum sínum, komu allir saman í „Kjarna“ þar sem nemendur skólans sungu fyrir gestina við undirleik Þórunnar Ragnarsdóttur, kennara.  Biskup ávarpaði nemendur og færði þeim gjafir.  Gestirnir þáðu síðan kaffiveitingar.  Heimsókn þessi var í alla staði mjög notaleg.

Skólaskákmót var haldið í nóvember.  Jóhann Helgi Ingþórsson úr 8. bekk varð sigurvegari á unglingastiginu og í öðru sæti varð Jón Árni Magnússon úr 9. bekk.  Á miðstiginu sigraði Hjörtur Þór Magnússon og annað sætið hreppti Garðar Smári Óskarsson en þeir eru báðir í 6. bekk.

Undanfarin ár hefur grunnskólum landsins boðist tónlistarskemmtun á vegum verkenisins „Tónlist fyrir alla“.  Listamenn hafa heimsótt skólann og flutt ýmis tónlistaratriði, oft með þátttöku nemenda.  Nú í haust þurfti að fella þessa skemmtun niður vegna veðurs og ófærðar.  Vonir standa þó til að af heimsókninni geti orðið á nýju ári.

Föstudaginn 18. nóvember var Grunnskólamót Norðurlands vestra í knattspyrnu haldið á Blönduósi.  Mótið er ætlað nemendum í 8., 9. og 10. bekk í grunnskólunum.  Piltarnir úr Húnavallaskóla stóðu sig með miklum glæsibrag.  Þeir höfnuðu í þriðja sæti eftir æsispennandi úrslitaleik við Varmahlíðarskóla í Skagafirði.  Í fyrsta sæti varð Árskóli á Sauðárkróki eftir að hafa sigrað Siglfirðinga í úrslitaleik.

Í nóvembermánuði heimsótti Hilmar Frímannsson, slökkviliðsstjóri þriðju bekkinga og kynnti þeim eldvarnir og brunahættu.  Erna Jónmundsdóttir, lögregluþjónn á Blönduósi heimsótti 1., 2. og 3. bekk og fór með nemendum yfir umferðarreglur og helstu hættur í umferðinni. 

Árshátíð Húnavallaskóla
Árshátíð skólans var haldin föstudaginn 25. nóvember.  Eins og áður var hátíðin metnaðarfull og fjölsótt.  Þar voru flutt tónlistaratriði, nemendur áttunda og níunda bekkjar sýndu leikritið „Dýrin í Kúluskógi“ undir leikstjórn Sigurðar H. Péturssonar, umsjónarkennara.  María Heba Þorkelsdóttir leikkona leikstýrði nemendum tíunda bekkjar í söngleiknum „Komin til að sjá og sigra“ en hann er byggður á kvikmynd Stuðmanna „Með allt á hreinu“.  Að venju stóðu nemendur sig mjög vel og heilluðu áhorfendur, jafnt unga sem aldna.

Nemendur 10. bekkjar sjá um undirbúning og framkvæmd árshátíðar skólans.  Árshátíðin hefur nú í allmörg ár verið haldin síðasta föstudag í nóvember.  Óhætt er að segja að sú tilhögun hafi reynst vel, einkum vegna þess að enn er langt í samræmd próf í tíunda bekk og því minni hætta á röskun í námi.  Sá háttur hefur verið hafður á að leiklistarmenntaður starfsmaður hefur verið ráðinn til skólans í hálfan mánuð fyrir árshátíð,  hefðbundið bóknám í tíunda bekk er lagt til hliðar og nemendur gefa sig alfarið leiklistargyðjunni á vald.     

Að loknum skemmtiatriðum voru foreldrar og forráðamenn tíundu bekkinga með kaffisölu sem var hin glæsilegasta að vanda.  Á meðan hinir eldri nutu veitinganna dönsuðu ungmennin til klukkan eitt.

Allur ágóði af skemmtuninni rann í ferðasjóð 10. bekkinga.  Þar sem sýningin tókst með afbrigðum vel var ákveðið að setja söngleikinn „Komin til að sjá og sigra“ upp í félagsheimilinu á Blönduósi, miðvikudaginn 28. desember.  Sú sýning var fjölsótt og heppnaðist mjög vel. 

Þriðjudaginn 20. desember voru litlu jólin þar sem yngri nemendur sýndu leikhæfileika sína, dansað var kringum jólatréð og tveir jólasveinar komu í heimsókn með sælgæti handa nemendum.  Hátíðinni lauk með hefðbundnu diskóteki fyrir eldri nemendur og síðan tók jólafríið við.    

 

Þorkell Ingimarsson, skólastjóri