Fréttir

14.10.2021

Leikhúsferð 8. - 10. bekkur

Þjóðleikhúsið bauð nemendum í 8. – 10. bekk á leiksýningu í dag 14. október. Sýningin var í danssal Félagsheimilisins á Blönduósi og var fyrir nemendur í Höfðaskóa, Blönduskóla og Húnavallaskóla. Verkið er skrifað sérstaklega fyrir efstu bekki grunnskólans. Höfundur verksins er Matthías Tryggvi Haraldsson en leikstjóri er Björn Ingi Hilmarsson. Verkið er spennandi hugleiðing um vináttu, misgóðar forvarnir og myndbandsveituna Youtube. Þar eru Konráð og Sirrý að flytja alheiminum mikilvæg skilaboð í von um að verða heimsfræg, eða allavega að geta bjargað einhverjum unglingi á Austfjörðum. En kannski snýst þetta, ómeðvitað, meira um að fá viðurkenningu frá hinum krökkunum í skólanum.
13.10.2021

Búningadagur á Vallabóli

Í dag var búningadagur á Vallabóli. Margar furðuverur mættu á svæðið og við dönsuðum af okkur tærnar á búningaballinu sem við héldum en Sigga Beinteins hélt uppi stuðinu eins og henni einni er lagið. Myndin er af eldri hópnum en því miður vantaði okkur tvo meistara.
07.10.2021

Lærdómssamfélagið í A-Hún - þróunarverkefni í leik- og grunnskólum

Starfsmenn leik- og grunnskóla í Austur Húnavatnssýslu taka nú þátt í þróunarverkefninu Lærdómssamfélagið í A-Hún. sem Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands leiðir. Verkefnið er styrkt af Sprotasjóði og er markmiðið að efla faglegt samstarf, starfsþróun og gagnvirkt nám og skapa menningu sem hvetur og viðheldur stöðugu námi meðal starfsfólks leik- og grunnskóla til að efla nám nemenda. Haldið var hálfsdags námskeið í ágúst á TEAMS en síðari hluti námskeiðs var haldið í Blönduskóla þann 6. október síðastliðinn. Kennarar og starfsmenn skóla munu starfa í lærdómssamfélagsteymum þvert á alla skóla í vetur þar sem unnið verður út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna. Áætlað er að halda uppskeruhátíð með öllu starfsfólki skólanna vorið 2022.